Lýðheilsu „fórnað á altari hagsmunagæslu“

Samtökin velta því upp að velferð þeirra sem etja við …
Samtökin velta því upp að velferð þeirra sem etja við spilafíkn sé fórnað á altari hagsmunagæslu rekstaraðila og eigenda spilakassa. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við óskum eftir rökstuddum svörum við þessari breytingu. Þetta er okkur óskiljanlegt,“ segir Alma Björk Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn, um núgildandi sóttvarnareglur sem heimila notkun spilakassa, þvert á tilmæli í minnisblaði sóttvarnalæknis.

Staðir eins og sjoppur með spilakassa, sem telja sig ekki falla undir spilasali, halda þannig áfram sinni spilastarfsemi í skjóli reglugerðarinnar, að sögn Ölmu.

Lýðheilsu „fórnað á altari hagsmunagæslu“

„Samtök áhugafólks um spilafíkn fordæma að lýðheilsu og velferð svo viðkvæms hóps, sem spilafíklar eru, sem og lýðheilsu alls almennings, sé fórnað á altari hagsmunagæslu eigenda og rekstraraðila spilakassa Íslandsspila; Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ,“ segir í yfirlýsingu samtakanna, þar sem krafist er útskýringa á því að starfsemi spilakassa sé leyfð. 

„Vonbrigði okkar voru svo gríðarleg að við þurftum að athuga aftur hvort þetta væri ekki örugglega rétt skilið sjá okkur. Ég get ekki séð hvaða skýringar liggja þarna að baki fyrir utan fjárhagsleg sjónarmið,“ segir Alma.

Kemst í spilakassa en ekki með soninn í klippingu

Lagði sóttvarnalæknir til að skemmti- vínveitingastaðir, krár og spilasalir yrðu lokaðir, í minnisblaði sínu frá 30. október síðastliðnum en í reglugerð heilbrigðisráðherra er farið framhjá tillögu sóttvarnarlæknis, með því að minnast einungis á lokun spilasala en ekki spilakassa.

„Krár, skemmtistaðir, spilakassar og spilasalir verði lokaðir,“ segir í minnisblaði sóttvarnalæknis en í reglugerð heilbrigðisráðherra segir: „Skemmtistöðum og krám, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, og spilasölum skal lokað frá gildistöku reglugerðarinnar.“ 

„Í eldra minnisblaði sóttvarnalæknis, frá 15. október, minntist hann ekki á lokun spilakassa en sá ástæðu til að bæta spilakössum við nú, einmitt til þess að skerpa á reglunum,“ segir Alma. Segir hún breytinguna skjóta skökku við:

„Hingað til hefur heilbrigðisráðherra treyst sóttvarnalækni til að taka ákvarðanir og þetta skýtur skökku við þar sem samfélagið er í lamasessi. Ég get ekki farið með son minn i klippingu en ég get farið með hann í næsta söluturn í spilakassa,“ segir Alma. 

Alma Björk Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn.
Alma Björk Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilkynning Samtaka áhugafólks um spilafíkn í heild:

„Samtök áhugafólks um spilafíkn óska eftir rökstuddum svörum við því hvers vegna heilbrigðisráðherra tók út "spilakassa" í nýjustu reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, í andstöðu við tillögur sóttvarnalæknis um opinberar sóttvarnaaðgerðir, sbr. minnisblað hans þar að lútandi dags. 29. október sl.

Afleiðingar þessa eru að Íslandsspil sf. hafa spilakassa sína opna. Þrátt fyrir að spilakassar þeirra eru staðsettir í spilasölum. Varla er það hlutverk heilbrigðisráðherra að gæta fjárhagslegra hagsmuna einstakra rekstraraðila umfram aðra, á kostnað lýðheilsu almennings í landinu.

Óska samtökin eftir upplýsingum um hver sé hin brýna þörf sem knýr heilbrigðisráðherra til að fara gegn tilmælum sóttvarnalæknis í þessum efnum.

Jafnframt óska Samtök áhugafólks um spilafíkn eftir afriti af öllum erindum sem kunna að hafa borist ráðuneytum varðandi spilakassa í tenglsum við sóttvarnir gegn Covid, hvort sem um ræðir beiðnir um að hafa umrædda spilakassa opna eða útskýringar á starfsemi þeirra, eða staðsetningu.

Samtök áhugafólks um spilafíkn fordæma að lýðheilsu og velferð svo viðkvæms hóps, sem spilafíklar eru, sem og lýðheilsu alls almennings, sé fórnað á altari hagsmunagæslu eigenda og rekstraraðila spilakassa Íslandsspila; Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ.

Að endingu fara Samtök áhugafólks um spilafíkn þess á leit við heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir því að leyfi til reksturs spilakassa verði afturkölluð tafarlaust. Á undanförnum mánuðum hefur berlega komið í ljós að umrædd "góðgerðasamtök" eru ekki verðug slíkra leyfa. Ekkert í þeirra framkomu og starfsháttum gefur tilefni til að halda að þeim sé treystandi til að halda úti jafn umdeildri og viðkvæmri starfsemi, þar sem líf og velferð einstaklinga sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómi er lagt að veði.

Þar sem erindi þetta snýr að fleiri ráðuneytum en heilbrigðisráðuneyti er samrit sent á dómsmálaráðherra og forsætisráðherra, með ósk um að það verði kynnt og rætt í ríkisstjórn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina