Vilja stórskipaþurrkví í Njarðvík

Áætlanir eru um að athafnasvæðið verði á 7 hektara svæði.
Áætlanir eru um að athafnasvæðið verði á 7 hektara svæði.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur uppi áform um byggingu yfirbyggðar þurrkvíar. Áætlað er að framkvæmdin kosti um tvo milljarða króna. Pétur Einarsson ráðgjafi skipasmíðastöðvarinnar segir að viðræður við fjármálafyrirtæki og fagfjárfesta séu hafnar auk þess sem málið hefur verið kynnt fyrir stjórnmálamönnum.  Áætlað er að kvíin geti skapað 70-80 störf á svæðinu. 

Pétur segir að ekki séu mörg stór verkefni í gangi og fyrir vikið hafi verið tekið vel í umleitanir um svo stóra fjárfestingu. „Skipaflotinn hefur gjörbreyst á undanförnum áratugum. Við erum búin að fara úr 700 tonna togurum í allt að 5000 tonna togara. Þessi nýjustu skip eru allt að 18 metra breið og allt að 90 metra löng,“ segir Pétur. 

 „Það eru tvær stórar flotkvíar í landinu. Ein í Hafnarfirði og ein á Akureyri auk þess sem slippurinn í Reykjavík getur tekið tiltölulega stór skip. Kvíin í Hafnarfirði er hins vegar 16 metra breið og er ekki að ná breiðustu skipunum. Svo er það líka að gerast að allra stærstu og nýjustu skipin eru svo þung að flotkvíar ná ekki að lyfta þeim,“ segir Pétur.  

Engar þyngdartakmarkanir 

Hvað er þurrkví?  

„Hún er kví sem er á landi. Skipin sigla inn í kvína og svo lokast hún og vatnið tæmist. Þannig þarf ekki að lyfta skipinu eins og með flotkvína. Það eru engar þyngdartakmarkanir á þurrkví,“ segir Pétur. 

Hann segir að sum íslensk skip, sérstaklega þau sem þurf að fara í heildar yfirhalningu eða í breytingu, fari erlendis í slipp. Áfram verði hagkvæmast að gera það ytra. Þurrkvínni í Njarðvík er ætlað að þjónusta verk sem taki styttri tíma. Telur hann að yfirbyggingin sé „bylting“ í ljósi þess að hægt verði að þjónusta skip allt árið. 

Heppilegast ef óháðir aðilar komi að verkefninu 

Spurður hvort ekki liggi best við að sjávarútvegsfyrirtæki sjái um fjárfestinguna þá segir Pétur að slík sjónarmið séu góðra gilda verð en hann telji heppilegast ef aðilar óháðir sjávarútvegnum komi að málinu.

Pétur Einarsson
Pétur Einarsson

 „Heildarverðmæti sjávarútvegi eru gríðarleg. Stálið í skipunum er metið á 200-300 milljarða og Íslandsbanki mat kvótann á um 1040 milljarða. Í því samhengi er skiljanlegt að ætla að  sjávarútvegurinn myndi koma að þessu og það er áhugi á því. En við teljum að það væri heppilegra að hafa fag- og óháða fjárfesta í þessu verkefni þannig að þetta væri óháð hagsmunum einhvers eins aðila eins og sjávarútvegsins,“ segir Pétur. 

Aðkoma ríkis og bæjar nauðsynleg 

Hann segir að hafnarframkvæmdir séu nauðsynlegar svo hægt verði að gera þurrkvína. Bæði með dýpkun og gerð skjólgarðs. Að sögn Péturs er nú þegar gert ráð fyrir því að málið verði til  umræðu í fjárlaga- og samgöngunefnd á þinginu. Pétur vonast til þess að málið fái framgöngu þar sem og hjá fulltrúum Reykjanesbæjar. 

Að sögn Péturs er málið komið nokkuð langt í þeim skilningi að rætt hefur verið við þingmenn á suðurnesjum, sveitarfélögin á suðurnesjum, hafnarstjórnir og þingnefndir. Að auki hefur Árni Sigfússon, fyrrum bæjarstjóri í Reykjanesbæ, rætt við ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir hönd verkefnisins.  

Skipasmíðastöð Njarðvíkur er um 75 ára gömul. Hér má sjá …
Skipasmíðastöð Njarðvíkur er um 75 ára gömul. Hér má sjá gamla skrifstofuhúsnæði skipasmíðastöðvarinnar en flutt var úr því árið 2017.

Kvíin verði gerð í Tyrklandi og flutt til Íslands

Hér má sjá nokkrar lykiltölur um áætlanirnar. 

  • Áætlanir gera ráð fyrir því að þurrkvíin verði steinsteypt í Tyrklandi. Hún verði 110 metra löng og 24 metra breidd og 9000 tonn.
  • Kvíin verður flutt í heilu lagi á skipi sem sekkur sig fyrir utan Ísland og svo er kvíin dregin í land og sökkt í stæði með 30-40.000 tn af möl og steypu. 
  • Stefnt er að því að hafa kvína yfirbyggða. Hún yrði 11 metra djúp vegna þess að skipin eru ekki dregin upp á land eins og í Reykjavík t.d. heldur sigla inn og svo er kvíin lokuð og tæmd. 
  • Stærstu fiskiskip Íslands og á Norður Atlantshafi eru 80-90 metra löng, 16-18 metra breið og allt að 5000 tonn. Gert er ráð fyrir því að slík skip rúmist vel í nýju kvínni og varðskipið Þór líka þrátt fyrir að vera yfir 90 metra á lengd og yfir 30 metra hátt.   
  • Velta Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur er áætluð 750 milljónir króna á þessu ári en verður yfir tveimur milljörðum króna ef áætlanir standast. 
  • Markhópur fyrir þessa nýja starfsemi er um 180 skip á Íslandi og í nágrannalöndum þannig það eru mikil sóknarfæri fyrir Ísland í þessari starfsemi.
  • Gert er ráð fyrir 70-80 nýjum störfum þegar nýja yfirbyggða þurrkvíin er komin í gagnið og allt að 120 afleidd störf.   
  • Nýtt athafnasvæði yrði um 7 hektarar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert