Farið fram á lögbann á þátt Stöðvar 2

Úr stiklu þáttarins, sem birt er á vef Vísis.
Úr stiklu þáttarins, sem birt er á vef Vísis. Skjáskot/Vísir

Barnaverndarnefnd Eyjafjarðar óskaði eftir því við sýslumann að lögbann yrði sett á birtingu fimmta þáttar þáttaraðarinnar Fósturbarna á Stöð 2. Þetta staðfestir Vilborg Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Eyjafjarðar, í samtali við mbl.is.

Í þættinum, sem verður sýndur á Stöð 2 klukkan 20:10 í kvöld, er rætt við hjón sem tóku að sér fimmtán mánaða gamalt fósturbarn. Barnið er nú á fjórða ári en í þættinum segja foreldrarnir að þau óttist ekkert meira en að barnið verði tekið frá þeim. Stikla úr þættinum hefur verið birt á Vísi.

Barnaverndarnefnd hefur forsjá yfir barninu, en það er í umsjá fósturforeldranna.

Í samtali við mbl.is segir Vilborg að barnaverndarnefnd hafi farið þess á leit við Stöð 2 að þátturinn yrði ekki birtur. „Miðað við sögu málsins og stöðu þess í dag teljum við ekki við hæfi að birta myndir af þessu barni í því umhverfi sem það er,“ segir Vilborg. „Til að gæta hagsmuna allra fórum við fram á að barnið kæmi ekki fram í mynd eða að fjallað yrði um fortíð þess.“ 

Með lögfræðing í málinu

Ekki var orðið við þeirri beiðni og í kjölfarið fór barnaverndarnefnd sem fyrr segir fram á lögbann. Lögbannskrafan hefur ekki verið samþykkt, en aðspurð segir Vilborg þó að henni hafi ekki verið hafnað enn. „Það má segja að við höfum fengið þetta seint fram. Þetta er stuttur tími. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það er, en ég held að það hafi bara ekki náðst,“ segir Vilborg.

Hún segir málinu ekki sjálfhætt þótt þátturinn fari í birtingu. „Nei, nei. Við erum bara með lögfræðing í málinu og erum búin að stíga þau skref sem mögulegt er í ferlinu. Svo tökum við bara stöðuna í framhaldinu.“

Spurð hvort birting þáttarins og sú ákvörðun fósturforeldranna að koma fram í sjónvarpsþætti geti haft áhrif á vinnslu málsins segist Vilborg ekki geta sagt til um það.

Ekki náðist í Sindra Sindrason, umsjónarmann þáttarins Fósturbarna, við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert