Nýr turn í Kópavogi lækkaður úr 25 í 15 hæðir

Turninn sem er hægra megin fyrir miðju hefur verið lækkaður …
Turninn sem er hægra megin fyrir miðju hefur verið lækkaður í núgildandi deiliskipulagi. Var áður heimilt að byggja allt að 32 hæða turn á reitnum áður en ný auglýsing gerði ráð fyrir 25 hæðum. Nú hefur hann hins vegar verið lækkaður í 15 hæðir. Á þessari mynd má einnig sjá hvernig fyrsti áfangi varðandi tengingu milli Glaðheimasvæðisins og Smáralindar verður í formi göngu- og hjólastígs. Teikning/Deiliskipulag Kópavogs

Bæjarstjórn Kópavogs hefur samþykkt breytt deiliskipulag fyrir vesturhluta Glaðheimasvæðisins, en það er svæðið austan við Reykjanesbrautina og vestan við Lindahverfi, þar sem áður var reiðhöll og hesthús Hestamannafélagsins Gusts. Dregið verður úr byggingamagni atvinnuhúsnæðis miðað við fyrri plön og risavaxinn turn lækkaður umtalsvert.

Reiturinn sem um ræðir er rétt austan við Smáralind og …
Reiturinn sem um ræðir er rétt austan við Smáralind og hverfið 201 Smári. Teikning/Deiliskipulag Kópavogs

Í kynningu á deiliskipulaginu fyrr í ár var gert ráð fyrir 25 hæða turni undir atvinnuhúsnæði á svæðinu, en í skipulagi frá árinu 2009 var gert ráð fyrir 32 hæða turni. Í núgildandi skipulagi sem var samþykkt í síðustu viku hefur turninn verið lækkaður í 15 hæðir, en íbúar á svæðinu mótmæltu í sumar hversu hár turninn átti að vera. Samkvæmt skipulaginu verður lagður göngu- og hjólastígur frá hverfinu yfir Reykjanesbrautina að Smáralind og nýja hverfinu sem gengur undir nafninu 201 Smári.

Í nýsamþykkta deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að 15 hæða turninn verði samtals 55,4 metrar á hæð. Verður hann þannig um helmingi lægri en sá turn sem settur var fram í deiliskipulagskynningu fyrr í sumar, en þar var gert ráð fyrir 115 metra háum 25 hæða turni. Til samanburðar er stóri turninn við Smáratorg 77,6 metrar og 20 hæðir. Þrátt fyrir að turninn í Glaðheimum sé lækkaður þetta mikið mun hann áfram skaga yfir svæðið, enda stendur hann nokkuð hærra en turninn við Smáratorg.

Teikning frá deiliskipulagskynningu Kópavogs í sumar. Þá var gert ráð …
Teikning frá deiliskipulagskynningu Kópavogs í sumar. Þá var gert ráð fyrir að turninn yrði 25 hæðir. Hætt hefur verið við þau áform. Teikning/Deiliskipulagskynning Kópavogs

Svæðið er í heild 8,6 hektarar að stærð, en við hlið þess hefur á síðustu árum risið upp þétt byggð á austurhluta skipulagssvæðisins. Eins og sjá má á meðfylgjandi teikningu er nýja skipulagssvæðið það sem liggur næst Reykjanesbrautinni. Verður verslunar- og þjónustuhúsnæði á 12 lóðum næst Reykjanesbrautinni, en þau hús verða á þremur til fimm hæðum, auk fyrrnefnds 15 hæða turns. Þar fyrir innan, verða fimm fjölbýlishúsalóðir á 5-12 hæðum auk lóðar undir leikskóla.

Svæðið sem um ræðir er á vestari hluta gula svæðisins, …
Svæðið sem um ræðir er á vestari hluta gula svæðisins, sem afmarkað er með punktalínunni. Þegar hefur verið byggt á austari hluta svæðisins. Teikning/Deiliskipulag Kópavogs

Heildarstærð atvinnuhúsnæðis með kjallara og bílageymslum er í nýja skipulaginu 85 þúsund fermetrar og heildarstærð íbúðarhúsnæðis með kjallara og bílageymslum um 37 þúsund fermetrar. Þá er áætlaður 1.500 fermetra leikskóli á svæðinu. Heildarbyggingarmagn á deiliskipulagssvæðinu er því 123 þúsund fermetrar og þar af 75 þúsund fermetrar ofanjarðar, eða 61%.

Gert er ráð fyrir atvinnuhúsnæði á tólf lóðum upp með …
Gert er ráð fyrir atvinnuhúsnæði á tólf lóðum upp með Reykjanesbrautinni og Arnarnesvegi, en íbúðabyggð þar inn af. Á austari reitnum, sem þegar er byggður er fyrir að finna íbúðarhúsnæði. Teikning/Deiliskipulag Kópavogs

Gert er ráð fyrir um 270 íbúðum á svæðinu, en miðað við 2,7 íbúa á hverja íbúð gæti íbúafjöldi orðið um 730. Að meðaltali verða 1,3 bílastæði á hverja íbúð samkvæmt skipulaginu og eitt stæði fyrir hverja 35 fermetra í verslun og þjónustu, eitt stæði á hverja 50-60 fermetra af skrifstofu- og atvinnuhúsnæði og eitt stæði á hverja 100 fermetra í geymslu- og kjallararými.

Á síðari stigum framkvæmda á svæðinu er gert ráð fyrir …
Á síðari stigum framkvæmda á svæðinu er gert ráð fyrir að byggt verði yfir Reykjanesbrautina með eins konar loki þar sem hjóla- og göngustígurinn verður. Er þannig gert ráð fyrir að tengja hverfin beggja vegna við Reykjanesbrautina betur saman. Teikning/Deiliskipulag Kópavogs
Stígakerfi svæðisins í tveimur fösum. Í seinni fasa er horft …
Stígakerfi svæðisins í tveimur fösum. Í seinni fasa er horft til þess að bæta samgöngur gangandi og hjólandi yfir Reykjanesbrautina. Miðað við tengistíginn sem liggur meðfram Reykjanesbrautinni ætti hjólandi umferð að komast frá Garðabæ í gegnum Lindahverfið án þess að þurfa að taka mestu hækkunina upp meðfram Arnarnesveginum, heldur að geta farið í gegnum Glaðheimasvæðið á leiðinni í áttina að Mjódd. Teikning/Deiliskipulag Kópavogs
Turninn hefði gnæft yfir svæðið, en hann hefur verið lækkaður …
Turninn hefði gnæft yfir svæðið, en hann hefur verið lækkaður í 15 hæðir í núverandi skipulagi. Teikning/Deiliskipulagkynning Kópavogs
mbl.is

Bloggað um fréttina