Stór hluti greindist á Norðurlandi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tölur gærdagsins eru jákvæðar að því leytinu til að þetta er svipaður fjöldi og var í fyrradag en það var tekið töluvert meira af sýnum í gær,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við mbl.is. Alls greindust 27 með Covid-19 inn­an­lands í gær. Tekin voru 1.339 einkennasýni, 225 sóttkvíar- og handahófssýni, 298 skimanir voru á vegum ÍE og 227 sýni voru tekin á landamærum.

Til samanburðar greindust 26 með Covid-19 innanlands í fyrradag en þá voru einkennasýni mun færri eða 751.

Þórólfur segir að hlutfall jákvæðra sýna hafi lækkað töluvert. Þegar mest lét var hlutfallið um 5% en er núna milli 1 og 2%.

Þórólfur segir að stór hluti þeirra sem greindist búi á Norðurlandi og of snemmt sé að segja til um hvort takist hafi að ná utan um hópsýkingar sem blossuðu upp þar. Alls voru 95 í einangrun á Norðurlandi eystra í gær en eru nú 115 samkvæmt nýjum tölum á covid.is. Þrír liggja inni á sjúkrahúsinu á Akureyri.

„Svo erum við með á Landspítala þennan fjölda áfram og við vitum að þunginn af alvarlegum veikindum kemur svona viku eftir að einkenni byrja,“ segir Þórólfur. 74 eru inniliggjandi á Landspítala vegna Covid-19 og fjórir af þeim á gjörgæslu. Einn lést vegna veirunnar í gær en viðkomandi var á tíræðisaldri.

„Það er enn þungt á spítalanum og það tekur lengri tíma að létta á því,“ segir Þórólfur. Hann bætir við að staðan sé að batna á Covid-göngudeildinni vegna þess að fólki með virkt smit fækkar dag frá degi.

„Við erum með ljós teikn í þessu. Þetta tekur bara ákveðinn tíma,“ segir Þórólfur.

Ertu með skilaboð til fólks sem er orðið þreytt á þessu veiruástandi?

„Við biðjum fólk að gera sér grein fyrir því af hverju við förum í þessar íþyngjandi aðgerðir. Það er til þess að við getum náð þessu niður hratt þannig að hægt verði að aflétta takmörkunum frekar fljótt aftur,“ segir Þórólfur og heldur áfram:

„Fólk þarf áfram að passa sínar einstaklingsbundnu sýkinga- og sóttvarnir. Jafnvel þótt faraldurinn náist niður þarf hver og einn að halda því áfram. Veiran verður líklega áfram með okkur í samfélaginu eitthvað áfram en við þurfum bara að halda henni í skefjum. Það gerum við með einstaklingsbundnum sóttvörnum en ef það virðist ekki ganga þurfum við að grípa til þessara íþyngjandi aðgerða. Þetta hangir allt á því að fólk passi sig og spili með.

mbl.is

Bloggað um fréttina