Ásmundur beðið lengi eftir liðskiptaaðgerð

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, átti að fara í liðskiptaaðgerð í gær en henni hefur verið frestað eins og öðrum slíkum valkvæðum aðgerðum vegna kórónuveirunnar.  

Þetta kom fram í máli hans á fundi velferðarnefndar Alþingis þar sem rætt var um neyðarstig Landspítalans.

„Sjálfur átti ég að fara í liðskiptaaðgerð í gær sem verður frestað um óákveðinn tíma og maður er búinn að bíða ansi lengi,“ sagði Ásmundur.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

„Mér þykir leitt að heyra að þín liðskiptaaðgerð hafi frestast. Ég veit hversu vont þetta er, að þurfa að bíða með lélega liði,“ svaraði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Hann sagði Landspítalann þurfa að finna leiðir við að auka afkastagetu sína við að sinna liðskiptaaðgerðum og nefndi að verið væri að þróa liðskiptasetur á Akranesi. Þangað gætu sérfræðingar annars staðar frá, m.a. frá Landspítalanum, komið og skorið upp.

Hertri löggjöf gegn þungunarrofi mótmælt í Varsjá í Póllandi.
Hertri löggjöf gegn þungunarrofi mótmælt í Varsjá í Póllandi. AFP

Spurði út í þungunarrof pólskra kvenna á Íslandi

Ásmundur spurði einnig út í þingsályktunartillögu átján þingmanna um að konur í Póllandi sem geta ekki gengist undir þungunarrof í heimalandi sínu vegna hertra relgna geti komið til Íslands og notið heilbrigðisþjónustu hér. Benti hann á frétt á RÚV um 150 þúsund þungunarrof í Póllandi á ári. „Ráðum við við slíka þjónustu?“ spurði hann. 

Páll sagði Landspítalann ekki geta tekið við 150 þúsund konum sem þyrftu að fara á kvennadeildina. „Við erum ekki með þannig bolmagn en ég vil nú kannski ekki tjá mig meira um þetta mál umfram það. Ég hef ekki heyrt nein áform um að taka við slíkum hópi,“ sagði hann.

mbl.is