„Þetta er eins og að vera á sjó“

Hjálmar Örn Jóhannsson (t.h.) ásamt Helga Jean Claessen (t.v.).
Hjálmar Örn Jóhannsson (t.h.) ásamt Helga Jean Claessen (t.v.). Ljósmynd/Aðsend

Þegar Hjálmar Örn Jóhannsson skemmtikraftur sá afbókanir hrúgast inn í byrjun kórónuveirufaraldursins síðasta vetur og sá fram á algjört tekjufall ákvað hann að grípa til sinna eigin ráða. Það hefur sannarlega borgað sig því hann segir að það hafi aldrei verið jafn mikið að gera hjá honum og nú.

Hjálmar er helst þekktur fyrir að bregða sér í gervi „hvítvínskonu“ og hlaðvarpið Hæ hæ brá á það ráð með Helga Jean Claessen, hinum þáttastjórnanda Hæ hæ, að bjóða upp á rafræn barsvör (e. pub quiz) og bingó. Þá hefur Hjálmar einnig troðið upp rafrænt sem hvítvínskona og segir að hann kynnist fólkinu sem hann skemmtir jafnvel betur með þessum hætti en hinum hefðbundna. 

„Þetta byrjaði eiginlega í mars eða apríl, þá fór ég að sjá að það væri eðlilega ekki hægt að skemmta mikið og það hrúguðust inn afbókanir. Ég fann bara að ég væri að fara að verða tekjulaus,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.

„Ég vissi af því að það væri hægt að kaupa aðeins dýrari reikning hjá [spurningaforritinu] Kahoot. Með honum getur þú boðið fólki að taka þátt rafrænt og takmörk á fjölda eru 2.000 manns. Ég keypti þennan dýra aðgang og fékk strax fyrsta giggið sem var Arion banki. Það gekk svona rosalega vel og sló í gegn. Það spurðist eiginlega bara út strax.“

Hvítvínskonan stýrir bingói.
Hvítvínskonan stýrir bingói. Ljósmynd/skjáskot af Facebook

„Íslendingar eru bingósjúkir

Hjálmar fór í kjölfarið að auglýsa þessa rafrænu skemmtun á sínum miðlum og notaði forritið Kahoot til að byrja með. Ásóknin datt aðeins niður í sumar en Hjálmar segir að álagið hafi verið „gjörsamlega tryllt“ í ágúst, september og október. „Það er bara búið að vera algjört brjálæði.“

Í september fóru þeir Helgi líka að bjóða upp á rafrænt bingó. „Íslendingar eru bingósjúkir og ég var ekki með neitt sérstakt bingóapp þannig að ég bara gúgglaði það og fann heimasíðu sem ég nota í þetta og virkar rosalega vel. Ég get boðið upp á bingó fyrir allt að 1.000 manns og þetta er bara búið að vera stanslaus bingó- og pubquiz-vertíð, þetta er eins og að vera á sjó fyrir utan það að maður er ekki sjóveikur og ekki í neinni hættu,“ segir Hjálmar. „Það er meira að gera hjá mér núna heldur en venjulega.“

Ætlaði aldrei að verða „bingókarl“

Hjálmar segir að þessi rafræna skemmtun sé ekkert verri en sú sem fari fram í persónu.

„Málið er það að fyrst þegar ég gerði þetta fyrir Arion-banka þá var ég á Facebook-live hjá þeim og þá sá ég bara spjallið þeirra. Það var eiginlega bara alveg meiri háttar. Fólk var á fullu að skrifa, segja hvar það var og hvað það var að gera, borða eða með fjölskyldunni, og það myndaðist alveg ótrúlega skemmtileg stemmning,“ segir Hjálmar sem ætlaði sér aldrei að verða „bingókarl“.

„Mér hefur aldrei þótt óþægilegt að tala við tölvuskjá, ég hef einhvern veginn aldrei upplifað það. Ég hef fengið fólk til að kommenta og svona og þá er maður hálfpartinn að spjalla við fólk, ég er að tala en þau eru að skrifa. Þetta er þannig séð búinn að vera ótrúlega skemmtilegur tími, ofan í öllum þessum leiðindum.“

Saman stýra Helgi og Hjálmar hlaðvarpinu Hæ hæ – Ævintýri …
Saman stýra Helgi og Hjálmar hlaðvarpinu Hæ hæ – Ævintýri Helga og Hjálmars.

Hvítvínskonan hvetur starfsfólk áfram

Hvað með hvítvínskonuna, fær hún einhverja útrás?

„Já. Hvítvínskonan var bókuð þarna í mars/apríl, þá hafði lyfjafyrirtæki samband við mig og vildi fá hvítvínskonu til að peppa sig í miðju Covid. Ég sendi þeim myndband af hvítvínskonunni þar sem hún var að spjalla við starfsmenn og var með nokkra punkta til að hvetja þau áfram í Covid, það er líka búið að vera mikið að gera í því. Reiknistofa bankanna bókaði mig um daginn og fékk nokkur hvítvínskonumyndbönd send þar sem hún var að halda uppi stemmningunni í fyrirtækinu,“ segir Hjálmar.

Hann hrósar fyrirtækjum og starfsmannastjórum þeirra fyrir lausnamiðaða hugsun sem miðar að því að skemmta starfsfólki á þessum erfiðu tímum.

„Eins og hjá Olís um daginn, það var alveg rosaleg stemmning hjá þeim, við vorum í heila viku að peppa alla. Mér finnst ég vera búinn að kynnast fólki einhvern veginn miklu nánar en maður hefði kannski gert hinsegin, það eru meiri samskipti einhvern veginn.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert