Áhrif þriðju bylgjunnar á unga fólkið hrikaleg

Sigurþóra Bergsdóttir og Sólveig Þorvaldsdóttir aðstoða ungmenni í vanda hjá …
Sigurþóra Bergsdóttir og Sólveig Þorvaldsdóttir aðstoða ungmenni í vanda hjá Berginu headspace. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þriðja bylgjan er að hafa hrikaleg áhrif á unga fólkið okkar,“ skrifar Sigurþóra Bergsdóttir, framkvæmdastjóri Bergs­ins headspace, á Facebook. Hún finni fyrir stóraukinni aðsókn í Bergið og segir að ungmennum líði mun verr en áður.

Bergið headspeace eru sam­tök um stuðningssetur fyr­ir ungt fólk sem voru stofnuð í fyrra.

Sigurþóra verður vör við mikinn kvíða, þyngsli og vangetu ungmenna til að takast á við dagleg störf í þessari einangrun sem mörg þeirra eru í út af takmörkunum sem eru í gildi vegna kórónuveirufaraldursins.

„Slæmar venjur eru að gera vart við sig, s.s. að klæða sig ekki, komast ekki út í hreyfingu, slæmt mataræði og fleira. Við óttumst að brottfall úr framhaldsskóla verði stórfellt nú fyrir jól, þau eru einfaldlega að gefast upp fyrir verkefninu,“ skrifar Sigurþóra.

Félagsleg einangrun og miklar námskröfur

Hún segir vandamálið tvíþætt. Annars vegar sé félagsleg einangrun að valda miklum vanda og Sigurþóra segir framhaldsskólana verða að bregðast við með einhverum hætti. „Opna skólana, bjóða upp á litla 3-5 manna námshópa, bjóða upp á stuðning á staðnum, leyfa krökkum að hitta námsráðgjafann í persónu ekki bara í gegnum síma.“ 

Mynd úr safni af ungum framhaldsskólanemum á Covid-tímum.
Mynd úr safni af ungum framhaldsskólanemum á Covid-tímum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hins vegar hafi námskröfur framhalds- og háskóla ekkert minnkað þetta haustið og það sé að buga unga fólkið sem sé lærandi heima meira og minna allan daginn.

Hægt er að koma til móts við þetta í fjölbrautaskólum með því að þau taki færri áfanga, þar geta foreldrar og skólinn stappað í ungmenni stálinu að það sé í lagi að vera aðeins lengur í framhaldsskóla. Í bekkjarkerfum er þetta erfiðara en ég óttast að þar verði mikið brottfall nema framhaldsskólar komi til móts við þetta,“ skrifar Sigurþóra. 

Traustir námsmenn í miklum vandræðum

Hún bætir við í samtali við blaðamann að þetta sé erfitt því stöðugt sé verið að bregðast við nýjum sóttvarnaráðstöfunum og ástandi. Framhaldsskólum sé vorkunn en tímabundnar ráðstafanir séu farnar að ná yfir langt tímabil og hafa mikil áhrif.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum að sjá trausta námsmenn í Berginu sem aldrei hafa verið í vandræðum í skóla upplifa mikinn vanda til að ná utan um námsefnið eins og ætlast er til,“ skrifar Sigurþóra og spyr hvort hópurinn þurfi ekki lengri tíma en þrjú ár til að klára framhaldsskóla.

Eitthvað þarf að gera í haust og vor til að koma til móts við þennan hóp, því ef við missum þau út úr skólunum verður vandinn mun erfiðari við að eiga.

mbl.is

Bloggað um fréttina