Umsagnir og athugasemdir við fréttir mbl.is

Frá vinstri: Ingvar Örn Ingvarsson, Gunnlaugur Jónsson og Kristófer Másson.
Frá vinstri: Ingvar Örn Ingvarsson, Gunnlaugur Jónsson og Kristófer Másson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lesendur mbl.is munu frá og með deginum í dag geta gefið fréttum umsögn og skrifað athugasemdir við fréttir sem birtast á netmiðlinum. Þrír hnappar verða neðst í fréttunum þar sem lesendur geta metið hvort þær séu háttvísar, gagnsamar eða hvort þeir séu sammála þeim. Gefa þeir fréttunum þannig sína einkunn og í framhaldinu er svo hægt að setja inn athugasemd sem sömuleiðis fær einkunn frá öðrum lesendum. 

Íslenska sprotafyrirtækið Veriate hannar þetta kerfi sem er ætlað að búa til vettvang fyrir skoðanaskipti og málefnalega umræðu við fréttir.  Ingvar Örn Ingvarsson, einn stofnenda Veriate og framkvæmdastjóri almannatengslafyrirtækisins Cohn & Wolfe á Íslandi, segir að vinna við þessa viðskiptahugmynd hafi staðið yfir í tæp þrjú ár. Hann og Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Fjártækniklasans, byrjuðu á verkefninu og síðar bættist hugbúnaðarverkfræðingurinn Kristófer Másson við, sem er tæknistjóri fyrirtækisins.  

Smellubrellur og falsfréttir

Ingvar Örn segir að sameiginlegur vinur hafi leitt hann og Gunnlaug saman en báðir hafi lengi haft áhuga á upplýsingamiðlun, gagnsæi og áhrifum fjórða valdsins á lýðræði og málfrelsi. Spurður nánar út í þetta nýja kerfi segir hann að fjölmiðlar hafi glímt við tvíþætt vandamál. „Annars vegar snýr þetta að fjölmiðlunun sjálfum sem glíma við versnandi efnahagslegt umhverfi þar sem hver sem er er í raun orðin eigin boðrás, til dæmis með hjálp samfélagsmiðla. Það er gríðarlegur vöxtur í fjölda fjölmiðla á heimsvísu en þeir eru ekki allir jafn vandaðir. Þetta hefur leitt til m.a. smellubrellna, efnisverksmiðja og falsfrétta sem spilli fyrir eðlilegri fréttaumfjöllun á sama tíma og tekjur fjölmiðla minnka stöðugt,“ greinir hann frá.  

Hitt vandamálið segir hann að tengist hinum svokölluðu virku í athugasemdum. Athugasemdakerfi eins og þau voru hafa ekki verið að virka nægilega vel. „Sem er mikil synd því athugasemdakerfin eru að okkar mati mjög dýrmæt fyrir fjölmiðlana því þar er gagnvirkni í gangi og krítík á fréttirnar,“ segir Ingvar Örn og nefnir að nýja kerfið frá þeim félögum leysi þessi tvö vandamál. Um sé að ræða álitskerfi þar sem fólk hefur í fyrsta skipti kost á að greiða frétt atkvæði sitt. 

Dónaskapur gengur ekki 

Ef lesendur skrifa athugasemdir við fréttir geta þeir sjálfir fengið skor frá öðrum lesendum. Fjölmiðlar ákveða í sinni ritstjórnarstefnu hvernig athugasemdirnar birtast, til dæmis hvort háttvísi sé mikils metin. Þetta myndi þýða að í þeim tilfellum þar sem lesendur gefa athugasemdum annarra neikvætt skor fyrir háttvísi þá færist sú athugasemd neðarlega í athugasemdabunkann eða verður jafnvel sjálfkrafa falin. Hinar myndu færast ofar. Einnig gæti lesandi sem er óánægður með fyrirsögn fréttar og telur hana vera „smellubrellu“ gefið fréttinni neikvætt skor fyrir háttvísi og gagnsemi.  

Ef lesendur eru með dónaskap í athugasemdakerfinu og hafa ekkert fram að færa myndu þeir fá neikvætt skor frá öðrum lesendum og athugasemd þeirra færast niður. „Þeirra eini kostur er þá að bæta sína frammistöðu og hegða sér betur svo „kommentin“ verði sýnd. Þetta á að vera hegðunarbreytandi og gengur út á að virkja hagsmuni fjöldans til að ýta undir góðar og siðaðar umræður í fjölmiðlum og skoðanaskipti,“ bendir Ingvar Örn á og segir að með þessu nýja kerfi færist umræðan meira frá samfélagsmiðlum þar sem fréttum er venjulega dreift og aftur inn á fjölmiðla. Vilji fólk tjá sig um frétt kemur athugasemdin fram undir nafni í gegnum skráningu á Facebook og þannig verður það fyrst um sinn. Þegar það greiðir frétt eða athugasemd atkvæði sitt er kosningin aftur á móti leynileg.  

Samfélag í kringum fréttaumfjöllun

Að sögn Ingvars Arnar munu lesendur eiga sína athugasemdasögu sem allir geta séð. Þannig getur fólk mögulega fundið skoðanabræður sína eða þá sem eru helst á öndverðum meiði, auk þess sem fólk fær heildareinkunn fyrir athugasemdir sínar. Sömuleiðis gætu fjölmiðlar nýtt efnið úr athugasemdum til að búa til fleiri fréttir og blaðamenn gætu verið hluti af samtali í athugasemdakerfinu. 

Ekki er víst að fjölmiðlar vilji hafa athugasemdakerfið virkt við allar fréttir, til dæmis þær sem teljast viðkvæmar, segir hann og bætir við: „Við flestar fréttir er þetta líklegt til að búa til samfélag í kringum fréttaumfjöllun þar sem fólk verðlaunar góða vinnu og gott framlag í athugasemdum í þágu betri umræðu og með tíð og tíma byggir fólk líka upp sinn prófíl.“ 

Spurður hvort ekki sé hætta á því að fólk gagnrýni frétt eða fréttamann að ósekju segir hann að vissulega geti fólk hópast saman til þess, eins og er nú þegar að gerast. Tólin eru þá betur fyrir hendi til þess að takast á við það. Gagnsæi kerfisins myndi tryggja að hópar á öndverðum meiði gætu hópað sig saman og brugðist við til að afla sínum málstað fylgis meðal hinna hlutlausu. 

Færa út kvíarnar 

Gert er ráð fyrir því að Veriate færi út kvíarnar og að kerfið nái til að mynda inn í erlenda fréttamiðla strax á næsta ári. Þannig gefist fólki kostur á að lesa fréttir í mismunandi fjölmiðlum um sama málefni með mismunandi einkunnagjöf og sjónarhornum. Einnig væri hægt að sjá hvernig fólk tjáir sig um ákveðin málefni, til dæmis þungunarrof, milliríkjadeilur eða hryðjuverk, í mismunandi fjölmiðlum og löndum. „Þarna opnast gluggi sem brýtur okkur leið úr þessum bergmálshelli sem er það vandamál sem samfélagsmiðlarnir hafa búið til fyrir okkur,“ greinir hann frá.  

Veriate hefur undanfarin tvö ár verið í samskiptum við erlenda ráðgjafa frá kunnum fjölmiðlum á borð við Wall Street Journal, Bloomberg, Dow Jones, New York Times og BBC. „Við sjáum af þeirra viðtökum og áhuga á þessu að þarna telja menn að sé góður möguleiki á að hreyfa við málum af einhverri alvöru, styðja við fjórða valdið og nota þennan hóp fólks sem við gætum kannski kallað fimmta valdið,“ segir hann og bætir við fyrirtækið hafi einnig leitað ráðgjafar hjá íslensku fjölmiðlafólki enda er gert ráð fyrir að álitskerfið verði tekið upp á sem flestum fjölmiðlum svo færa megi umfjöllun af samfélagsmiðlum og sem mest aftur til fjölmiðlanna.  

Fyrir fólk en ekki leitarvélar

Ingvar Örn heldur áfram og segir að fyrir fimmtíu árum hafi fréttir verið skrifaðar fyrir fólk og farið í dagblöðin og þau seld á götuhornum og í áskrift. Í dag séu fréttir meira skrifaðar fyrir algóriþma og leitarvélar. „Við erum að reyna að snúa þessu við þannig að fréttir séu aftur skrifaðar fyrir fólk. Við viljum láta fólkið velja hvaða fréttir eru góðar en ekki leitarvélar eða algóriþma.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert