Skoðar skjálftasprungur með aðstoð gervitungla

Myndin sem Sigurjón deildi á Twitter. Þetta er bylgjuvíxlmynd búin …
Myndin sem Sigurjón deildi á Twitter. Þetta er bylgjuvíxlmynd búin til úr radargögnum frá Sentinel-1 gervitunglunum. Ljósmynd/Aðsend

Gervitunglamælingar hafa verið notaðar til að skoða þær breytingar sem urðu á yfirborði jarðar vegna jarðskjálftans á Reykjanesi 20. október sem mældist 5,6 stig.

„Það eru sprunguhreyfingar á yfirborðinu sem við sjáum í þessum gervitunglamælingum. Þarna er hnik líklega í mesta lagi 10 sentímetrar og við sjáum í þessum mælingum hvar þetta er,“ segir Dr. Sigurjón Jónsson, prófessor í jarðeðlisfræði við KAUST háskóla í Sádí-Arabíu, sem hefur verið staddur hérlendis að undanförnu.

Hann hefur farið til að skoða þessar smásprungur, meðal annars hjá fjallinu Keili og Vígdísarvöllum og segist hafa áhuga á að gera fleiri gervitunglamælingar til að fá betri mynd af hreyfingunum á svæðinu.

Þessi ljósmynd var tekin uppi á Núpshlíðarhálsi, vestan Vigdísarvalla, nærri …
Þessi ljósmynd var tekin uppi á Núpshlíðarhálsi, vestan Vigdísarvalla, nærri upptökum stóra skjálftans á dögunum. Þar sést nokkurra sentímetra færsla á yfirborðinu. Ljósmynd/Aðsend

Rifnaði til norðurs á 2-3 sekúndum

Sigurjón segir skjálftann á Reykjanesi athyglisverðan að mörgu leyti. Hann hafi orðið á norður-suður misgengi eins og stærri skjálftar á svæðinu. Hann hafi byrjað sunnarlega og jörðin hafi svo rifnað til norðurs á um tveimur til þremur sekúndum í átt að Reykjavík. Þegar það gerist, þ.e. jörðin rifnar frá suðri til norðurs, má búast við auknum hreyfingum frá skjálftanum norðanmegin og finnst hann þá betur norðan við svæðið.

Hann segist í samstarfi við fólkið sitt erlendis hafa náð í radarmæligögn frá Sentinel-1 gervitunglunum fljótlega eftir að skjálftinn varð og búið til svokallaða bylgjuvíxlmynd úr gögnum frá því fyrir og eftir skjálftann sem sýnir hreyfingarnar á yfirborði jarðar. Þremur dögum eftir skjálftann setti hann myndina á Twitter og fékk hún mikil og góð viðbrögð. „Þetta er bara mjög falleg litmynd sem sýnir allt Reykjanesið, Reykjavík og Keflavík og þarna sést að eitthvað er í gangi þar sem skjálftinn er,“ útskýrir hann.

Hægt að nálgast nýleg gögn fyrir skjálfta

Spurður nánar út í gervitunglarannsóknir á jarðskjálftum segir hann þær hafa byrjað fyrir um 30 árum síðan. Hér á landi voru þær mikið notaðar til að skoða stóru skjálftana árin 2000 og 2008. Hann segir aðferðirnar vera í stöðugri þróun og núna séu komin gervitungl á loft sem safna gögnum mjög reglulega. Þegar stór skjálfti á borð við þann sem varð á Reykjanesi á dögunum verður er hægt að nálgast nýleg gögn frá því rétt fyrir skjálftann.

Sigurjón segir rannsóknir sínar á Íslandi þó fyrst og fremst tengjast skjálftasvæðinu fyrir norðan og hefur hann unnið með nemendum sínum við að skoða það sem gerðist þar í sumar. Sú skjálftahrina var sú öflugasta á Norðurlandi í rúm 40 ár, eða frá 1976. Hann segir stærstu skjálftana fyrir norðan geta orðið stærri en á Reykjanesi en erfiðara sé að skoða hrinurnar fyrir norðan í eins miklum smáatriðum vegna þess að þær eiga upptök sín úti í sjó, undir hafsbotninum. Því er miklu erfiðara að komast að upptakasvæðunum.

Sá stærsti í 20 ár

Varðandi jarðskjálftann á Reykjanesi bætir Sigurjón við að ekki séu allir sammála um hvenær jafnstór skjálfti varð þar síðast. „Mér telst til að þetta sé sá stærsti í 20 ár,“ segir hann og nefnir skjálftann sem varð undir Kleifarvatni 17. júní árið 2000. Fyrri skjálftinn á Suðurlandi þann sama dag hafi komið skjálftanum undir vatninu af stað.

mbl.is