„Það er langt í land“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við getum verið ánægð með árangurinn en megum ekki gleyma okkur í einhverri sigurgleði. Þetta er alls ekki búið,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 19 greindust með kórónuveiruna í gær og hafa jákvæð sýni ekki verið jafn fá frá 16. september; um það leyti er þriðja bylgja hófst.

Þórólfur segir að kúrfan yfir nýgreinda hafi þokast hægt og bítandi niður á við, líkt og spáð hafi verið. „Ég held að það sé út af öllum þessum aðgerðum sem hafa verið í gangi í svolítinn tíma,“ segir sóttvarnalæknir.

„Það er langt í land og við megum ekkert slaka á, þá fáum við þetta bara aftur í bakið.“

Átta sjúklingar lagði inn á Landspítala í gær

Átta sjúklingar voru lagðir inn á Landspítala í gær vegna Covid-19 en alls eru 78 inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna veirunnar, að því er fram kemur á covid.is. Þórólfur segir að þung staða á spítalanum komi ekki á óvart.

„Við vitum að alvarleg veikindi koma svona viku til tveimur eftir að þau byrja. Það kemur ekkert á óvart að við séum að sjá fleiri innlagnir á spítala þó nýsmitum fækki,“ segir hann og bætir við að eldra fólk, sem líklegra er til að veikjast, hafi smitast upp á síðkastið.

Þórólfur segist vissulega hafa áhyggjur af því að fólk fari að slaka á þegar það heyri að málin séu að þokast í rétta átt.

„Sterkustu skilaboðin sem ég get sent er að fólk á að vera ánægt með þær aðgerðir sem það hefur tekið þátt í að móta en það þýðir ekki að hætta núna því þá fáum við aftur bakslag og þurfum aftur að taka okkur á. Þetta er langhlaup og það þarf hver og einn að líta í eigin barm og passa sig,“ segir Þórólfur og ítrekar áhættuna af hópamyndun, til að mynda í gleðskap og hjá fjölskyldum og vinahópum.

mbl.is

Bloggað um fréttina