Gerir alvarlegar athugasemdir við starfsemi RÚV

Ríkisútvarpið við Efstaleiti.
Ríkisútvarpið við Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmiðlanefnd gerir alvarlegar athugasemdir við starfsemi Ríkisútvarpsins á starfsárinu 2018 í árlegu mati sínu á stofnuninni. Það hefur þó ekki áhrif á niðurstöður matsins og telur nefndin að RÚV hafi uppfyllt þá gæðastaðla sem fram koma í 3. grein laga um Ríkisútvarpið. 

Í skýrslu fjölmiðlanefndar er gerð athugasemd við að RÚV hafi dregið það að stofna dótturfélag um samkeppnisrekstur. Gildistöku ákvæðis 4. grein laga um Ríkisútvarpið, þar sem kveðið er á um stofnun dótturfélaga um samkeppnisrekstur, var frestað í tvígang en ákvæðið tók gildi 1. janúar árið 2018. 

Dótturfélagið RÚV-sala var stofnað 1. janúar á þessu ári og var þar með ákvæði 4. grein laganna uppfyllt. Að mati fjölmiðlanefndar hefur þetta ekki áhrif á niðurstöður matsins vegna þess að það feli aðeins í sér að kanna hvort gæðastaðlar í 3. grein laganna séu uppfylltir. Auk þess sem Eftirlitsstofnun EFTA setji ekki skilyrði um að samkeppnisrekstur almannaþjónustumiðla sé í sérstöku dótturfélagi til að ríkisstyrkjareglur teljist uppfylltar.

Greiðslur til verktaka skilgreindar sem greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda

Fjölmiðlanefnd gerir einnig athugasemd við hvernig RÚV skilgreinir kaup sín af sjálfstæðum framleiðendum. Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið er stofnuninni skylt að verja 10 prósentum af heildartekjum sínum á árinu 2018 til kaupa eða meðframleiðslu á efni frá sjálfstæðum framleiðendum. Í greinargerð RÚV kemur fram að kaup af sjálfstæðum framleiðendum árið 2018 hafi verið 13,24 prósent. Við nánari skoðun kemur í ljós að stór hluti af þessum greiðslum rann til verktaka.

Samkvæmt lista yfir kaup RÚV af sjálfstæðum framleiðendum voru verktakagreiðslur til dagskrárgerðarfólks, pródúsenta og myndatökumanna hjá RÚV meðal þess sem talið var til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum. Þar á meðal voru greiðslur til einstaklinga sem störfuðu fyrir íþróttadeild og við sjónvarpsþættina Menninguna, Landann, Gettu betur, Silfrið og Vikuna.

Segir skilgreiningu RÚV ekki standast skoðun

Fjölmiðlanefnd kemst að þeirri niðurstöðu að skilgreining RÚV á sjálfstæðum framleiðendum standist ekki skoðun. Hugtakið er hvorki skilgreint í lögum um Ríkisútvarpið né í samningi um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Í lögum um fjölmiðla er hins vegar kveðið á um að sjálfstæðir framleiðendur séu lögaðilar óháðir viðkomandi fjölmiðlaveitu. 

Hluti greiðslnanna sem skilgreindar voru til sjálfstæðra framleiðenda var til verktaka sem hafa það að aðalstarfi að sinna íþróttafréttum eða dagskrágerð í sjónvarpsþáttum RÚV og eru hluti af daglegri eða vikulegri dagskrá. Auk þess sem þessir einstaklingar voru fram til 8. júlí 2020 skráðir sem starfsmenn RÚV á vefnum og með eigið netfang á netþjóni RÚV. Þessar upplýsingar um starfsmenn voru fjarlægðar af vef RÚV hinn 8. júlí.

Fjölmiðlanefnd telur ríka ástæðu til þess að gerðar verði ríkari kröfur um sjálfstæði og óhæði hinna sjálfstæðu framleiðenda sem greiðslur RÚV renna til. Í skýrslunni kemur fram að mennta- og menningarmálaráðuneytið ætli að breyta samningsákvæðunum um sjálfstæða framleiðendur í drögum að nýjum þjónustusamningi með þeim hætti að aðeins verði gerð krafa um kaup af sjálfstæðum framleiðendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert