Stórgræddi á sigri Biden

Kristján Daði Finnbogason og Viðar Þór Sigurðsson vöktu saman yfir …
Kristján Daði Finnbogason og Viðar Þór Sigurðsson vöktu saman yfir bandarísku forsetakosningunum í vikunni. Örlagarík ákvörðun Viðars þá nótt hefur í ljósi nýjustu tíðinda borið ríkulegan ávöxt. Ljósmynd/Instagram

Með fyrirvara um málaferlin fram undan vestanhafs, er sigur í höfn fyrir Joe Biden, frambjóðanda demókrata í bandarísku forsetakosningunum. Það er alltént mat flestra þarlendra fjölmiðla eftir að Pennsylvanía féll nýja forsetanum í skaut.

Þetta þýðir um leið að niðurstaða er komin í veðbankana sem fjöldi fólks hafði hliðsjón af á meðan spennandi talning stóð yfir, til þess að sjá í hvora áttina stefndi. 

Eðli máls samkvæmt snerist sá leikur þó síst aðeins um hliðsjón, heldur í mörgum tilvikum líka um virka þátttöku, eins og sannast í tilfelli Viðars Þórs Sigurðssonar.

Þegar hann sá líkurnar snúast með ógnarhraða Trump í vil um miðja nótt aðfaranótt miðvikudags ákvað hann að slá til og veðja á andstæðing hans demókratann. Hann setti samtals þúsund evrur á Joe Biden á þeim hagkvæmu stuðlum 2,7 og hluta á 3,2. 

Eftir sigurinn er hann því nú um 200.000 krónum ríkari. „Það verður sungið og trallað langt fram eftir hérna fyrir vestan,“ segir Viðar í samtali við mbl.is.

Upplýsingar sem skiluðu sér ekki inn í stuðlana

Viðar er knattspyrnumaður og spilar fyrir Vestra í fyrstu deild og vakti á kosninganótt ásamt félaga sínum Kristjáni Daða Finnbogasyni, sem er þjálfari hjá sama liði, þó að báðir séu þeir að upplagi Vesturbæingar.  

Tvímenningarnir höfðu frá öndverðu meiri trú á Biden enda flest sem benti til sigurs hans. Um tvö- eða þrjúleytið blasti þó við mynd sem ekki allir hefðu búist við, þar sem Trump var með forskot í lykilríkjum þar sem honum hafði verið spáð ósigri; Michigan, Wisconsin, Pennsylvania.

Það sem Kristján og Viðar vissu, og höfðu að sögn bæði aflað sér sjálfir upplýsinga um en einnig fræðst um hjá sérfræðingum að sunnan, var að mikill fjöldi póstatkvæða var væntanlegur í flestum ríkjum. Það sem þar átti eftir að koma upp úr kössunum myndi augljóslega falla Biden í hag, eins og rímar líka vel við þá óteljandi fyrirvara sem Donald Trump setti fram í aðdraganda kosninga um póstatkvæðin.

Í aðdraganda kosninga þótti líklegast að Biden myndi sigra, þó …
Í aðdraganda kosninga þótti líklegast að Biden myndi sigra, þó að um tíma hafi forskot Trumps bent til hins gagnstæða. AFP

Í ljósi þessara upplýsinga, sem af einhverjum ástæðum skiluðu sér ekki inn í hagstæðari stuðla fyrir Biden á umræddum tímapunkti, ákvað Viðar að setja pening á karlinn. Að hans sögn var ljóst að þar lægi „value“-ið eins og sagt er í veðmálaheiminum þegar veðjandi býr yfir upplýsingum um líklega framvindu á tilteknum viðburði, sem af einni eða annarri ástæðu skila sér ekki inn í stuðlana.

Það var rétt mat og Viðar gengur sáttur frá borði. Spurður hvort hann sé að auki pólitískt ánægður með niðurstöðurnar segir hann ekki tilefni til þess að taka afstöðu til þess að öðru leyti en fjárhagslega.

Viðar lauk nýverið prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands.
Viðar lauk nýverið prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands. Ljósmynd/Instagram

Yfirveguð nálgun af hálfu Viðars, jafnvel vísindaleg, og að því marki í takt við það að Viðar hefur í fræðistörfum sínum sérstaklega rannsakað umhverfi fjárhættuspila hér á Íslandi, eins og má lesa um hér í BS-ritgerð hans.

mbl.is