Faraldurinn hefur ólík áhrif á konur og karla

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Arnþór

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að umræður um stöðu kvenna vegna kórónuveirufaraldursins hafi verið ofarlega á baugi á Heimsþingi kvenleiðtoga sem haldið var í Hörpu í dag.

Meðal þátttakenda á þinginu voru Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi, og Svetlana Tsíkanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi og forsetaframbjóðandi.

„Við höfum haldið þetta þing undanfarin ár og höfum verið að stimpla okkur inn á þessum vettvangi. Þetta er auðvitað allt litað af heimsfaraldri kórónuveirunnar og því er fundurinn haldinn rafrænt nú í ár.“

Heimilisofbeldi og konur í framlínustörfum

Fleira breytist þó annað en fundarhaldið sjálft enda eru viðfangsefni þingsins í ár mjög lituð af kórónuveirufaraldrinum. Katrín segir að faraldurinn hafi ólík áhrif á konur og karla.

„Heimilisofbeldi hefur aukist í heimsfaraldrinum og þess vegna ræddum við það sérstaklega, enda hefur aðalritari Sameinuðu þjóðanna til að mynda kallað eftir því að umræða um þau mál fari fram.

Svo er auðvitað ákveðinn fókus á konum í framlínustörfum. Konur eru gjarnan í meirihluta í umönnunarstörfum á spítölum og hjúkrunarheimilum, fleiri konur kenna börnum í skólum og svo eru þær auðvitað oftar en ekki mjög virkir þátttakendur í öllu heimilislífi. Þess vegna má segja að faraldurinn hafi lagst svolítið þungt á konur.“

Væntir góðs af nýjum forseta

Katrín segist aðspurð hafa sent nýkjörnum forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, skeyti með árnaðaróskum. Katrín segist vænta góðs af nýjum forseta og segir stórt skref stigið með kjöri Kamölu Harris varaforseta. 

Kamala Harris verður fyrsta konan til að gegna varaforsetaembætti Bandaríkjanna.
Kamala Harris verður fyrsta konan til að gegna varaforsetaembætti Bandaríkjanna. AFP

„Ég er búin að senda skeyti, já.“

„Ég vænti bara góðs af nýjum forseta. Samstarf Íslands og Bandaríkjanna hefur ætíð verið gott. Það er áfangi í jafnréttismálum að kona sé kjörin varaforseti Bandaríkjanna enda skiptir gríðarlegu máli að fjölga konum í valdastöðum.“

Katrín Jakobsdóttir hitti fráfarandi varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, þegar hann kom hingað til lands 4. september í fyrra.

mbl.is