Gefa 20 milljónir til stuðnings þeim sem standa höllum fæti vegna kórónuveirufaraldursins

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf sagði að styrkurinn kæmi …
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf sagði að styrkurinn kæmi sér sannarlega vel á erfiðum tímum. Sigþrúður sést hér ásamt Þórði Magnússyni.

Eyrir Invest hf. hefur í dag styrkt Samtök um kvennaathvarf, Geðhjálp, Fjölskylduhjálp Íslands og Mæðrastyrksnefndir Reykjavíkur og Akureyrar um samtals 20 milljónir króna til að styðja skjólstæðinga þessara félaga sem orðið hafa illa úti í heimsfaraldrinum. 

Eyrir hefur árlega styrkt góðgerðarmál innanlands en heildarupphæðin er hærri að þessu sinni í tilefni 20 ára afmælis fyrirtækisins og í ljósi ástandsins í samfélaginu, að því er félagið greinir frá í tilkynningu. 

„Eyrir á 20 ára starfsafmæli á árinu og hefur notið velgengni með því að styðja við hugvit, nýsköpun og langtímauppbyggingu fyrirtækja en Eyrir er einn stærsti fjárfestir í nýsköpun á Íslandi í gegnum vísisjóðina Eyrir sprotar og Eyrir Ventures. Nú eiga margir erfitt vegna áhrifa heimsfaraldursins, hafa orðið fyrir tekjumissi, heilsutjóni og einangrun. Við viljum leggja okkar af mörkum til að aðstoða samtök sem vinna í þeirra þágu. Um leið hvetjum við önnur fyrirtæki sem eru aflögufær til að gera slíkt hið sama. Við verðum að styðja hvert annað eftir megni á meðan faraldurinn gengur yfir, vera hvetjandi og halda í bjartsýnina,“ segir Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest, í tilkynningu. 

Fulltrúum ofangreindra góðgerðarsamtaka voru afhentir styrkirnir í dag og færðar þakkir og góðar kveðjur frá Eyri Invest.  

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf, sagði að styrkurinn kæmi sér sannarlega vel á erfiðum tímum. „Kvennaathvarfið er sem fyrr opið konum og börnum sem geta ekki búið heima hjá sér vegna ofbeldis. Því miður hefur fjölgað í þessum hópi í heimsfaraldrinum. Við höfum þurft að gera ýmsar ráðstafanir til að styrkja sóttvarnir samhliða því að tryggja öryggi skjólstæðinga okkar. Þessi styrkur kemur því í góðar þarfir.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert