Afnám heimsóknarbannsins í algjörum forgangi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir það vera í algjörum forgangi að aflétta heimsóknarbanni aðstandenda fanga eins fljótt og öruggt er. Hún segir að allt sé gert til að tryggja öryggi og velferð fanga í kórónuveirufaraldrinum. 

Guðmund­ur Ingi Þórodds­son formaður Af­stöðu, félags fanga, sagði í samtali við mbl.is í dag að sú þungbæra fangavist sem nú er innan íslenskra fangelsa vegna Covid-19 hafi í för með sé slæmar afleiðingar. Guðmundur harmar samráðsleysi Fangelsismálastofnunar og dómsmálaráðuneytisins við samtök fanga. 

Þá segir faðir fanga sem hef­ur ekki fengið að hitta aðstand­end­ur sína í tæpa tvo mánuði ástandið vera öm­ur­legt. Ekki hafi verið aukið við ra­f­ræn sam­skipti í heim­sókn­ar­bann­inu og kalla faðir­inn og frænka fang­ans eft­ir því að fang­ar fái hvern dag í afplán­un nú met­inn sem einn og hálf­an dag eða jafn­vel tvo vegna þeirr­ar ein­angr­un­ar sem þeir þurfa að sæta vegna Covid-19-aðgerða.

Áslaug segir í samtali við mbl.is að hún hafi fullan skilning á erfiðri stöðu fanga í faraldrinum. 

„Ég tek auðvitað undir að þessi tími hafi verið erfiður fyrir þennan hóp eins og aðra í samfélaginu. Við höfum reynt að koma til móts við fanga eftir því sem aðstæður leyfa og við erum enn að liggja yfir ýmsum úrlausnum eftir því sem lengra líður á faraldurinn. Það hefur verið sett í forgang að halda daglegu lífi innan fangelsanna sem eðlilegustu og þessar sóttvarnaráðstafanir miða að því að skólastarf sé í gangi, að vinnuaðstaða sé opin, að það sé aðgengi að íþróttum og að fleira innan fangelsisins sé óbreytt. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir þá sem eru í afplánun,“ segir Áslaug. 

„Það verður að hafa það í huga þegar við erum að skoða hvernig sé best að tryggja bæði öryggi og velferð að smit innan fangelsanna gæti ógnað öryggi fanga með mjög alvarlegum hætti. Það er auðvitað mjög íþyngjandi að þurfa að vera lokaður alveg inni í sínum klefa í einangrun eða sóttkví og í rauninni mun meira íþyngjandi en fangelsisvistin ætti að vera,“ bætir Áslaug við. 

Aðgerðir verði að tryggja jafnræði 

Áslaug segir að ákvarðanir um heimsóknarbann og aðrar sóttvarnaráðstafanir séu teknar með það að leiðarljósi að koma í veg fyrir að smit komi upp innan fangelsanna.  

„Heimsóknartakmarkanir eru auðvitað íþyngjandi og það er mikilvægt að þeim sé aflétt um leið og það er hægt. Þessar aðgerðir eru allar hugsaðar út frá því að vernda fanga fyrir smitum og Fangelsismálastofnun fer fyrir þessu með almannavarnadeild og embætti landlæknis að gera þetta eins vel og hægt er án þess að það sé of íþyngjandi. Þetta heimsóknarbann á að gilda í sem stystan tíma og við höfum brugðist við með því að til dæmis auka aðgengi að fjarfundarbúnaði. Við skoðum allar tillögur en það er mikilvægt að þær skerði ekki jafnræði milli fanga,“ segir Áslaug. 

Frá Litla-Hrauni.
Frá Litla-Hrauni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafa afleiðingar þess að fangar fái ekki að sjá aðstandendur sína verið kortlagðar?

„Það er búið að kortleggja hvaða áhrif Covid-19 hefði ef smit kæmi upp innan fangelsanna. Staða fangelsanna er auðvitað viðkvæm, þar eru oft einstaklingar úr viðkvæmum hópum og með undirliggjandi sjúkdóma og smit getur ógnað öryggi fanga með alvarlegum hætti, það er mikil nálægð milli starfsmanna og fanga. Fangelsisvist er í eðli sínu mjög íþyngjandi en einangrun eða sóttkví innan fangelsis væri verulega íþyngjandi staða sem við erum að reyna að forðast eins og unnt er. Auðvitað áttum við okkur á því að heimsóknarbann hefur líka neikvæð áhrif, en það að tryggja starfsemina innanhúss eins og hægt er er auðvitað líka afar mikilvægt,“ segir Áslaug.

Spurð út í tillögur föður og frænku fang­a sem mbl.is greindi frá þess efnis að fang­ar fái hvern dag í afplán­un nú met­inn sem einn og hálf­an dag eða jafn­vel tvo vegna þeirr­ar ein­angr­un­ar sem þeir þurfa að sæta vegna Covid-19-aðgerða segir Áslaug:

„Þetta er eitthvað sem við höfum skoðað og við erum sífellt að skoða svona leiðir eftir því sem það líður lengra á faraldurinn og hann hefur langvarandi áhrif á fanga og afplánun. Vandinn við þessar tillögur er sá að þetta gæti skapað ójafnræði milli fanga og það þarf auðvitað að passa að allar aðgerðir komi ekki misjafnlega niður á föngum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert