Tveir samningar um bóluefni í undirbúningi

Heilbrigðisstarfsmaður með bóluefni í sprautu.
Heilbrigðisstarfsmaður með bóluefni í sprautu. AFP

Heilbrigðisráðuneytið vinnur nú að samningum við tvö lyfjafyrirtæki um bóluefni við kórónuveirunni, fyrirtækin Sanofi og Janssen. Ísland hefur þegar gert samning við lyfjafyrirtækið AstraZeneca um bóluefni. 

Þetta kemur fram í skriflegu svari frá heilbrigðisráðuneytinu við fyrirspurn mbl.is.

Ísland fær aðild að bóluefnasamningum Evrópusambandsins í gegnum Svíþjóð. Með þeim hætti hefur Íslandi verið tryggður nákvæmlega sami aðgangur að þeim bóluefnum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins semur um og Evrópusambandsríkin njóta.

„Samningar Evrópusambandsins snúast m.a. um magn og verð. Aftur á móti gerir hvert ríki jafnframt samning varðandi nánara fyrirkomulag við hvert lyfjafyrirtæki um sig. Ísland hefur þegar gert samning við AztraZeneca og tveir aðrir samningar eru í undirbúningi, þ.e. við SANOFI og Janssen,“ segir í svari ráðuneytisins.

Annar samningurinn sem nú er í undirbúningi er við franska …
Annar samningurinn sem nú er í undirbúningi er við franska lyfjafyrirtækið Sanofi. AFP

ESB á í viðræðum við Pfzier 

Í gær var greint frá því að nýtt bóluefni við kórónuveirunni, sem er í sam­eig­in­legri þróun hjá lyfja­fyr­ir­tæk­inu Pfizer og líf­tæknifyr­ir­tæk­inu Bi­oNTech, hafi í 90% til­vika komið í veg fyr­ir Covid-19-smit í þriðja fasa lyfjaþró­un­ar­inn­ar. Magnús Gottfreðsson, sér­fræðing­ur í smit­sjúk­dóm­um á Land­spít­al­an­um og pró­fess­or við Há­skóla Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að fyrstu niðurstöður rannsóknar á bóluefninu væru feikilega jákvæðar en ýmsum spurningum væri þó enn ósvarað. 

Pfizer og BioNTech eiga von á því að  geta boðið upp á allt að 650 millj­ónir skammta af bólu­efn­inu í ár og 1,3 millj­arða skammta á því næsta.

Í fyrirspurn mbl.is var sérstaklega spurt um bóluefnið frá Pfizer og BioNTech. Í svari ráðuneytisins kemur fram að Evrópusambandið sé enn í viðræðum við Pfizer um kaup á bóluefni og að samningsgerð sé langt komin.

mbl.is