Fleiri búa í foreldrahúsum en áður

Íbúðir, sem áður voru í skammtímaleigu, hafa í auknum mæli …
Íbúðir, sem áður voru í skammtímaleigu, hafa í auknum mæli leitað inn á langtímaleigumarkað eða verið settar á sölu. AFP

Hlutfall þeirra sem eru á leigumarkaði hefur dregist verulega saman milli ára og fara leigjendur úr því að vera um 16% af heildinni í lok seinasta árs, í tæplega 13% í júlí á þessu ári, samkvæmt húsnæðiskönnun HMS sem framkvæmd er reglulega.

Sú þróun hefur einnig orðið að hlutfallslega fleiri virðast búa í foreldrahúsum en áður, þar fer hlutfallið úr 8% í 12% á sama tímabili. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. 

„Önnur athyglisverð breyting á leigumarkaði er þróun leiguverðs en verulega hefur hægst á vexti þess á landinu öllu undanfarin misseri. Hækkunartaktur vísitölu leiguverðs hefur verið mjög lítill frá árinu 2019 og hefur vísitalan til að mynda verið að lækka seinustu mánuði og er núna svipuð á höfuðborgarsvæðinu og hún var í upphafi árs en örlítið hærri á landsbyggðinni. Ef horft er til breytinga seinustu tólf mánaða, þá er hækkunartakturinn að lækka fyrir höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina en fyrir nágrenni höfuðborgarsvæðisins hefur hækkunartakturinn leitað aðeins upp á við,“ segir í skýrslu HMS.

Þróun lægra leiguverðs má líklega rekja til mikils samdráttar á skammtímaleigumarkaði með fækkun ferðamanna til landsins að mati skýrsluhöfunda.

Byrjaði með WOW og svo dundi yfir annað áfall

„Samdráttur í komum ferðamanna hófst með falli Wow Air á fyrri hluta árs 2019 og svo dundi yfir annað áfall í kjölfar Covid-19 faraldursins sem hefur haft gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna og tengda starfsemi.

Samdrátturinn hefur orðið til þess að íbúðir, sem áður voru í skammtímaleigu, hafa í auknum mæli leitað inn á langtímaleigumarkað eða verið settar á sölu. Leigumarkaðskönnun HMS og Zenter leiðir þetta meðal annars í ljós, þar sem mun færri leigjendur svara því til en áður að framboð á leigumarkaði sé ekki nægt og talsvert fleiri telja það mikið.

Aukið framboð á leigumarkaði er líklegt til að hafa þau áhrif að lækka verð, sem sést á verðþróun seinustu mánaða. Áhrifin af faraldrinum sjást sömuleiðis á svörum leigjenda, þar sem ekki nema 14% segja að hann hafi haft neikvæð áhrif á stöðu sína á leigumarkaði, en meirihlutinn taldi að faraldurinn hefði engin áhrif haft og rúmlega 10% að hann hefði haft jákvæð áhrif.

Meðalleiguverð hefur einnig lækkað lítillega að undanförnu og er í dag svipað og það var í lok árs 2018, eða í kringum 200.000 kr. á mánuði, það er meðalleiguverð sem byggir á þinglýstum leigusamningum um land allt,“ segir í skýrslunni en sá varnagli sleginn að hafa verði í huga að meðalstærð og gerð íbúða hefur einnig tekið breytingum á tímabilinu.

Til að mynda minnkaði meðalstærð íbúða milli 2018 og 2019 um rúma 1,5 fermetra og einnig á milli 2019 og það sem af er ári 2020. Það kemur heim og saman við að mikið af þeim íbúðum sem voru í skammtímaleigu voru minni íbúðir staðsettar miðsvæðis og er það líklega að hluta til skýring á lækkun meðalleiguverðs.

mbl.is