Hverfandi líkur á vöruskorti fyrir jólin

Ólaf­ur Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda á fundi almannavarna.
Ólaf­ur Stephen­sen, fram­kvæmda­stjóri Fé­lags at­vinnu­rek­enda á fundi almannavarna. Ljósmynd/Almannavarnir

Í grunninn eru íslensk fyrirtæki bjartsýn þrátt fyrir erfiða stöðu vegna Covid-19, að sögn Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Þó segir hann að stuðningur ríkisins við fyrirtækin sé ekki nægur. Hverfandi líkur eru á vöruskorti fyrir jólin. 

Ólafur var gestur á upplýsingafundi almannavarna og embættis landlæknis í morgun. Þar sagði hann að margir atvinnurekendur séu áhyggjufullir og hafi áhyggjur af starfsfólki sínu og velferð þess. 

Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem eru félagar í Félagi atvinnurekenda telja að fyrirtæki þeirra verði enn starfandi að ári liðnu eða 90%. Aðspurður sagði hann þó þær aðgerðir sem hafa verið kynntar af stjórnvöldum til að létta fyrirtækjum róðurinn í þessu árferði ekki nægilegar. 

Mikill peningur tekinn til hliðar sem gengur ekki út

„Það er búið að taka til hliðar mjög mikla peninga til hjálpar fyrirtækjunum sem við sjáum síðan að ganga ekki út, mögulega vegna þess að skilyrði fyrir því að njóta viðkomandi stuðnings eru of stíf eða umsóknarferlið of flókið,“ sagði Ólafur og tók brúarlánin sem dæmi um misheppnað úrræði. 

Ólafur sagði hverfandi líkur á vöruskorti fyrir jólin. 

„Flutningar til landsins hafa gengið alveg ótrúlega vel. Það geta verið einhverjar mjög afmarkaðar vörur sem menn eru í vandræðum með að útvega en það er þá kannski frekar vegna einhverra vandræða við framleiðslu erlendis. Það hafa náttúrulega komið einhverjir hikstar í hina alþjóðlegu aðfangakeðju en hún hefur heilt yfir gengið alveg ótrúlega vel þannig að ég á ekki von á því að það verði neinn vöruskortur sem skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert