Styrkja byggingu Kvennaathvarfs um 100 milljónir og lóð

Árni Matthíasson, varaformaður stjórnar Samtaka um kvennaathvarf, Ásmundur Einar Daðason, …
Árni Matthíasson, varaformaður stjórnar Samtaka um kvennaathvarf, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri skoða framkvæmdir við nýtt áfangaheimi Samtaka um kvennaathvarf. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Ríkisstjórn Íslands mun leggja byggingu nýs Kvennaathvarfs til 100 milljónir. Skrifað var undir samning þess efnis í dag við Samtök um kvennaathvarf. Fjárveitingin er hluti af sérstöku fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar. Reykjavíkurborg úthlutar lóð til verkefnisins en við sama tilefni undirritaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lóðarvilyrði undir hið nýja neyðarathvarf.

Fjármununum verður varið í viðgerðir og endurbætur á núverandi húsnæði Kvennaathvarfsins, framkvæmdir og byggingu nýs áfangaheimilis, auk hönnunar á nýju neyðarathvarfi ásamt stuðningi til kaupa á lóð undir neyðarathvarfið.

Samtök um kvennaathvarf munu opna áfangaheimili sumarið 2021 sem er ætlað að verða 2. stigs úrræði fyrir konur og börn sem hafa dvalið í athvarfinu og eru tilbúin til að hefja nýtt líf á nýjum stað.  Um er að ræða 18 íbúða hús sem nú er í byggingu með stuðningi Reykjavíkurborgar, ríkisins og almennings.  Húsið er hannað samkvæmt reglum um aðgengi en til að tryggja að húsið uppfylli skilyrði um algilda hönnun þarf að fara í ákveðnar breytingar, sem nú verður ráðist í

Nýtt neyðarathvarf sem Samtök um kvennaathvarf munu reisa verður fyrsta sérhæfða húsnæðið sem byggt er undir neyðarathvarf á Íslandi. Með tilkomu þess munu Samtök um kvennaathvarf  tvöfalda húsnæði neyðarathvarfsins og  verður fagleg aðstoð mun aðgengilegri fyrir þær konur og börn þeirra sem þurfa á stuðningi og ráðgjöf að halda vegna ofbeldis.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, að afar ánægjulegt sé að styðja við verkefnið. Einnig er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra þakkarorð um starf Kvennaathvarfsins undanfarna áratugi.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf, segir í tilkynningunni að þar á bæ hafi fólk aldrei leyft sér að eiga draum um sérhannað húsnæði og að hún sé enn að átta sig fyllilega á því hvað þetta býður upp á marga möguleika. „Upp úr stendur þakklæti í garð þeirra sem hafa komið okkur á þennan stað í verkefninu og fyrirfram þakklæti í garð þeirra fjölmörgu sem við vitum að eiga eftir að hjálpa okkur við að koma upp nýju Kvennaathvarfi."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert