Yfirhjúkrunarfræðingur hafi dregið fólk í dilka

Arnarholt á Kjalarnesi.
Arnarholt á Kjalarnesi. mbl.is/Árni Sæberg

„Ósóminn“ á vistheimilinu Arnarholti var, að sögn forstöðumanns heimilisins, „varinn ofan frá“ og sagði forstöðumaðurinn yfirhjúkrunarfræðing sem starfaði á heimilinu hafa sýnt af sér undarlega hegðun. Þá sagði hann að mikill „sori“ hafi átt sér stað á heimilinu. 

Þetta kemur fram í bréfi sem hann sendi Borgarspítalanum árið 1984 og RÚV greindi frá í kvöldfréttum sínum. 

Forstöðumaðurinn hét Gísli Jónsson og sinnti hann starfinu frá árinu 1944 til ársins 1979. Hann lést sjö árum eftir að hann sendi bréfið eða árið 1991. 

Bréfið er einskonar uppgjör við tímann á Arnarholti. Þar fer hann yfir sögu heimilisins og minnist á að illa hafi gengið að ráða hjúkrunarfræðinga til starfa og því hafi helst ófaglært fólk starfað fyrir Arnarholt. 

„Flestir voru mjög slæmir“

Árið 1962 var ráðinn karlkyns hjúkrunarfræðingur sem Gísli kallar hjúkrunarmann. Miklar vonir voru bundnar við manninn, að sögn Gísla. Fljótlega fór þó að bera á undarlegri hegðun af hans hálfu, bæði gagnvart sjúklingum og starfsfólki. 

„Allir voru dregnir í dilka, og flestir voru mjög slæmir, en alltaf var einhver enn góður og þá mjög góður í nokkra daga, svo varð hann langverstur af öllum,“ skrifar Gísli. Starfsháttum mannsins var harðlega mótmælt af starfsfólki Arnarholts. 

Leitast við að ómerkja framburðinn

Vitnaleiðslur yfir starfsfólki Arnarholts leiddu í ljós að þar var ekki allt með felldu, meðal annars voru sjúklingar lokaðir inn í lengri tíma í refsingarskyni. Þrír læknar rannsökuðu aðbúnað í Arnarholti og tóku viðtöl við 24 þáverandi og fyrrverandi starfsmenn Arnarholts sem lýstu margir ómannúðlegri meðferð á heimilinu. Samt sem áður kaus nefndin að líta á það sem svo að engra úrbóta væri þörf. 

Um það skrifar Gísli: 

Og voru þetta eins konar yfirheyrslur þar sem leitast var við að hártoga og ómerkja framburð þeirra sem sögðu satt og rétt frá því sem um var spurt, og var það allt mjög í sama anda eins og framkoma fyrrverandi borgarlæknis, sem ávallt varði gerðir hjúkrunarmannsins, hverjar sem þær voru.

Þegar læknanefndin hafði „yfirheyrt“ meginhluta starfsfólksins sem var starfandi í Arnarholti á þessum tíma, var hóað saman jafn mörgu fólki sem hafði verið í afleysingum stuttan tíma og þekkti nánast ekkert til málsins, en var matað réttum andsvörum við alla sem höfðu sagt sannleikann. Sem sagt staðhæfing á móti staðhæfingu og málið farsællega í höfn fyrir fyrrverandi borgarlækni og co, en sjúklingarnir í Arnarholti sátu eftir með hjúkrunarmanninn og sitja með hann enn. Öll framkoma læknanefndarinnar svo og framkoma fyrrverandi borgarlæknis og co í þessu máli gæti verið ærið rannsóknarefni, eða jafnvel blaðamatur, og er ekki útilokað þótt seint sé, að það gæti látið sig gera.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert