Ástand og aðbúnaður á Landakoti ófullnægjandi

„Frumniðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar á COVID-19 tilfellum á Landakoti benda til …
„Frumniðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar á COVID-19 tilfellum á Landakoti benda til þess að smit hafi borist inn á stofnunina með nokkrum einstaklingum,“ segir í skýrslunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ástand húsnæðis, loftskipta og aðbúnaðar á Landakoti er ófullnægjandi með tilliti til sýkingarvarnasjónarmiða og er það líklega meginorsök dreifingar smita innan Landakots. Þar kom upp alvarleg hópsýking Covid-19 um miðjan október. A.m.k. tvö afbrigði veirunnar greindust á Landakoti. Líklega bárust smit inn með nokkrum einstaklingum.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu um málið sem Landspítali afhenti fjölmiðlum í dag.  

„Þetta mat er rökstutt með nokkrum atriðum, í fyrsta lagi þá er ekki loftræsting á
sjúkrastofum á Landakoti, í öðru lagi þá var kæfisvefnsvélameðferð beitt hjá einkennalausum einstaklingi sem greindist síðar COVID-19 smitaður. Þekkt er að kæfisvefnsvél eykur dropaframleiðslu einstaklinga og að vélin dreifi úðaögnum frá öndunarfærum sem geta svifið í loftinu í meira en klukkustund. Hér hafa léleg loftskipti líklega magnað upp aukna sýkingarhættu og smitdreifingu á SARS-CoV-2,“ segir í skýrslunni.

Gríðarlega mikil dreifing smitefnis

46 sjúklingar Landakots og 98 starfsmenn smituðust í hópsýkingunni og að minnsta kosti 10 hafa látist úr Covid-19 sem áður voru sjúklingar á Landakoti. 

„Það var greinilega gríðalega mikil dreifing á smitefni innan Landakots því hlutfall smitaðra meðal útsettra var mjög hátt,“ segir í skýrslunni. 

Hópsýkingin var tilkynnt 22. október en líklega höfðu einhverjir sjúklingar og/eða starfsmenn smitast af veirunni um viku fyrr. Í skýrslunni segir að ástæður hópsýkingarinnar séu margþættar. 

T.a.m. segir í skýrslunni að æskilegt hefði verið að mönnun hefði verið nægjanleg  svo mögulegt hefði verið að tryggja hólfaskiptingu starfsmanna á deildir. Þá lágu margir sjúklingar í tvíbýli þar sem tveggja metra fjarlægð var ekki tryggð og var einungis eins meters fjarlægð á milli rúma. Sameiginleg salernis- og sturtuaðstaða fyrir sjúklinga fjölgaði sameiginlegum snertiflötum þeirra og gátu smit því borist þannig á milli fólks.

Samkvæmt upplýsingum frá deildarstjórum og vaktstjórum á kvöldvakt var tveggja …
Samkvæmt upplýsingum frá deildarstjórum og vaktstjórum á kvöldvakt var tveggja metra reglan oft brotin í tilfelli aðstandenda og aðstandendur virtu ekki grímunotkun. Ljósmynd/Landspítali

Starfsmenn borða á stigapöllum eða á litlum kaffistofum

Þá er aðstöðu og aðbúnaði starfsmanna á Landakoti ábótavant, engin loftun er í búningsaðstöðu sem er þröng og býður einungis upp á þrjár sturtur fyrir alla starfsmenn. Þá hafa sumir starfsmenn ekki aðstöðu í aðal búningsherbergjum þrátt fyrir að þeim sé skylt að klæðast fötum frá Landspítala á vinnutíma. Framkvæmdir eru í matsal Landakots svo starfsmenn borða oft á stigapöllum og kaffistofur á legudeildum eru litlar svo oft reynist erfitt að halda tveggja metra fjarlægð en á kaffistofunum þarf fólk að taka niður grímur til að matast. 

Hvað aðstandendur varðar þá segir í skýrslunni að stjórnendur Landakots hafi farið eftir tilmælum sem lagðar voru fram af farsóttarnefnd vegna heimsóknartíma og fjölda heimsóknargesta. Samkvæmt upplýsingum frá deildarstjórum og vaktstjórum á kvöldvakt var tveggja metra reglan oft brotin í tilfelli aðstandenda og aðstandendur virtu ekki grímunotkun. Mikið eftirlit var með þeim málum og þarfnaðist það aukins mannafla.

Óljóst er hvort smit hafi komist inn á spítalann með sjúklingi, aðstandanda eða starfsmanni og er talið líklegt að nokkur smit hafi borist inn á Landakot á skömmum tíma.

„Frumniðurstöður faraldsfræðilegrar rannsóknar á COVID-19 tilfellum á Landakoti benda til þess að smit hafi borist inn á stofnunina með nokkrum einstaklingum en einnig er talið hugsanlegt að sum smita á milli stafsmanna megi rekja til eðlilegra náinna samskipta vegna fjölskyldu-og vinatengsla utan vinnustaðar,“ segir í skýrslunni. 

Tvö afbrigði veirunnar greindust í hópsýkingunni. Flest smitin reyndust vera …
Tvö afbrigði veirunnar greindust í hópsýkingunni. Flest smitin reyndust vera haplotypa 1 en tvö tilfellanna voru haplotypa 2. Ljósmynd/Landspítali

Samfélagssmit í hröðum vexti á sama tíma

Þar er bent á að „á því tímabili sem líklegast er að smit hafi borist inn á Landakot var samfélagslegt smit í hröðum vexti á Íslandi og var 14 daga nýgengi þá allt að 291,5/100.000 íbúa (17/10/20).“

Tvö afbrigði veirunnar greindust í hópsýkingunni. Flest smitin reyndust vera haplotypa 1 en tvö tilfellanna voru haplotypa 2. Ekki eru faraldsfræðilegar tengingar við haplotypu 2 innan Landakots og því líklegt að einhverjir hafi komið með það afbrigði veirunnar inn á Landakot en ekki smitað út frá sér innan stofnunarinnar. Að auki greindust nokkrir þeirra sem greindust með haplotypu 1 einnig með viðbótarstökkbreytingar.

Í skýrslunni kemur fram að mörg sóknarfæri séu á sviði sýkingavarna innan Landakots.

„Nefna má að styrkja þarf stöðu sýkingavarnadeildar innan stjórnkerfis spítalans og fjölga starfsfólki deildarinnar. Æskilegt er að hafa öflugra og skipulagðara eftirlit með grunnþáttum sýkingavarna s.s handhreinsun, réttri notkun á hlífðarbúnaði, gæðum umhverfisþrifa o.s.frv. til þess að hægt sé að beita viðeigandi íhlutunum og bæta fylgni við úrræði sem vitað er að dragi úr líkum á spítalasýkingum. Styrkja þarf fræðslu og kennslu í sýkingavörnum innan stofnunarinnar. Þá þarf að bæta húsnæðisaðstæður öldrunarsviðs og m.a bæta þætti eins og loftræstingu og fjölga einbýlum með sérsalerni og sturtuaðstöðu fyrir sjúklinga. Einnig þarf
að bæta búningsaðstöðu, sameiginleg vinnusvæði og mataraðstöðu fyrir starfsmenn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert