Margir þættir sem stuðluðu að því að illa fór

Sigríður Gunnarsdóttir á blaðamannafundi vegna skýrslu um Landakot í dag.
Sigríður Gunnarsdóttir á blaðamannafundi vegna skýrslu um Landakot í dag. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala segir að alltaf geti komið upp hópsmit kórónuveiru, hvar sem er í samfélaginu en spurningin sé hvort mögulegt sé að koma í veg fyrir að veiran breiðist út, eins og gerðist á Landakoti þar sem 98 manns smituðust. 

„Það hafa áður komið upp sýkingar í starfseminni hjá okkur sem við höfum náð að stöðva þannig að það virðast þarna hafa komið saman ótrúlega margir þættir sem einhvern veginn gerði það að verkum að þetta fór svona illa. Ég vona að það séu ekki líkur til þess [að sambærilegt hópsmit komi upp innan Landspítala aftur],“ segir Sigríður í samtali við mbl.is. 

Að hennar sögn reynir starfsfólk Landspítala sífellt að undirbúa sig fyrir að hópsmit komi upp. 

„Maður er að reyna að vinna eftir því sem er fyrirsjáanlegt en er á sama tíma að undirbúa sig undir alla mögulega þætti sem geta komið á óvart. Það geta vissulega komið upp svona sýkingar hvar sem er.“

Snýst um langtímafjármögnun heilbrigðiskerfisins

Þurfið þið ekki verulega aukin fjárframlög til þess að geta komist í gegnum þennan faraldur án þess að eitthvað svona komi aftur upp?

„Við höfum fengið mjög góðan stuðning og skilning á því að viðbrögð við Covid-faraldrinum kosta peninga svo stjórnvöld hafa alveg fyllilega staðið á bak við okkur í því að bregðast við þessu. Ég held að þetta snúist meira um langtímafjármögnun á kerfið í heild sinni þar sem þarf að huga að uppbyggingu á öllum þessum þáttum, húsnæði, búnaði og ekki síst mönnun. Við höfum svo sem sagt það lengi að íslenskt heilbrigðiskerfi sé vanfjármagnað miðað við víða annars staðar.“

Hópsmit Covid-19 kom upp á Landakoti í október. Minnst 10 …
Hópsmit Covid-19 kom upp á Landakoti í október. Minnst 10 manns hafa fallið frá vegna þess. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í skýrslu um hópsmitið á Landakoti sem birt var í dag kom fram að mörg sóknvarfæri væru á sviði sýk­inga­varna inn­an Landa­kots. T.d. þurfi að styrkja stöðu sýk­inga­varna­deild­ar inn­an stjórn­kerf­is spít­al­ans og fjölga starfs­fólki deild­ar­inn­ar. Æskilegt sé að hafa öfl­ugra og skipu­lagðara eft­ir­lit með grunnþátt­um sýk­inga­varna. Þá þurfi að bæta hús­næðisaðstæður öldrun­ar­sviðs og m.a bæta þætti eins og loftræst­ingu og fjölga ein­býl­um með sér­sal­erni og sturtuaðstöðu fyr­ir sjúk­linga. 

„Það þarf að gera enn meira“

Spurð hvort ráðist verði í þær úrbætur sem lagðar eru til í skýrslunni segir Sigríður:

„Við tökum þennan lærdóm og förum í að forgangsraða því sem þar kemur fram og reynum að hrinda eins miklu af því í framkvæmd af því og við mögulega getum, hvort sem það er á Landakoti eða annars staðar. Við erum búin að læra rosalega mikið rosalega hratt. Við erum búin að vera að safna því öllu í sarpinn til þess að bæta okkur en það eru stór verkefni. Auðvitað erum við líka búin að vera að vinna að mörgum af þessum umbótum áður en þetta kemur til en það þarf að gera enn meira.“

Í skýrslunni segir að einnig sé „talið hugsanlegt að sum smita á milli stafsmanna megi rekja til eðlilegra náinna samskipta vegna fjölskyldu-og vinatengsla utan vinnustaðar.“

Spurð hvað sé átt við með þessu segir Sigríður að t.a.m. eigi sumir starfsmenn í samskiptum utan vinnustaðar þar sem þeir tengist fjölskylduböndum og þurfi því eðlilega að eiga í samskiptum utan Landspítala. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert