„Nánast ómögulegt að fá að renna saman við hafið eða fjöllin“

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp sem miðar að því að liðka fyrir lögum um það hvar fólk er jarðsett. Hún talaði fyrir frumvarpinu í umræðum um störf þingsins á Alþingi í morgun. 

„Einhverra hluta vegna erum við með mjög strangar reglur þegar kemur að því að ráða sínum næturstað inn í eilífðina,“ sagði Bryndís. Fólk gæti í raun einungis látið jarðsetja sig í kirkjugarði eða látið brenna sig og jarðsetja sig með viðeigandi hætti. 

„Það er sum sé nánast ómögulegt að fá að renna saman við hafið eða fjöllin þó það kunni að vera það sem við helst óskum,“ sagði Bryndís. 

„Ég tel mikilvægt að við höfum frelsi þegar kemur að þessum málum eins og svo mörgum öðrum. Ég hef lítinn skilning á því að ríkisvaldið og stjórnsýslan þurfi að haga til um þessi mál.“

Bryndís benti á að það hafi færst í aukana að fólk óski eftir því að láta brenna sig í stað þess að jarðsetja sig. 

„Ég átta mig á því að kirkjugarðarnir okkar eru mikilvæg menningar- og samfélagsleg fyrirbrygði og mér finnst mikilvægt á jólum og öðrum hátíðisdögum að fara í kirkjugarðinn og minnast þeirra sem liðnir eru,“ sagði Bryndís en sagði að henni þætti einnig mikilvægt að geta ákveðið, þegar þar að kemur, hvar ástvinir hennar minnast hennar.

mbl.is