„Af hverju fara menn þessa leið?“

Sigríður Á. Andersen .
Sigríður Á. Andersen . mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vill að hér á landi séu sóttvarnaaðgerðir frekar í ætt við þær í Svíþjóð og segir það hafa verið svo hér þegar kórónuveiran steig fyrst á land. „Þess vegna er svo skrítið að menn hafi gefið í í þessum sóttvarnaaðgerðum þegar líður á faraldurinn,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.

Hún hélt í dag op­inn fjar­fund þar sem rætt var við dr. Mart­in Kulldorff, sem er einn þriggja höf­unda Barringt­on-yf­ir­lýs­ing­ar­inn­ar svo­kölluðu. 

Barringt­on-yf­ir­lýs­ing­in, sem skrifuð var af þrem­ur leiðandi heil­brigðis­sér­fræðing­um, er stutt plagg sem hvet­ur til þess sem kallað er „focu­sed protecti­on“ en það mætti þýða sem „hnit­miðaðar sótt­varnaaðgerðir“.

Í því felst að sam­komu- og út­göngu­banni, og öðrum skyldu­bundn­um tak­mörk­un­um á at­höfn­um og starf­semi manna, verði hætt, en í stað þeirra muni hver ein­stak­ling­ur velja það per­sónu­lega hvernig hann hag­ar sín­um sótt­varn­aráðstöf­un­um. Þetta þýðir í raun að sam­fé­lagið er opnað upp á gátt fyr­ir þá sem það kjósa.

Fleiri smit en minni veikindi

Myndi álagið ekki verða of mikið á spítalanum með þessu og fleiri myndu smitast?

„Hverjir myndu smitast? Væru það kannski yngri og heilsuhraustir sem eru ekki að veikjast svo mikið? Ég hef lagt áherslu á að það þarf að gera spítalanum kleift að taka á móti veiku fólki. Það er hlutverk spítala,“ segir Sigríður og heldur áfram:

„Hvert einasta ár skapast neyðarástand á Landspítalanum út af inflúensu og ýmsum kvillum. Við höfum séð, ef marka má orð sérfræðinga, að fólk veikist minna þótt fleiri smit greinist.“

Sigríður segir enn fremur að það sé viðbúið að fólk þurfi að leggjast inn á spítala út af Covid um ófyrirséða framtíð. „Jafnvel bóluefni breytir því kannski ekki þannig að spítalinn þarf að vera í stakk búinn til að taka á móti veiku fólki,“ segir hún.

Einblína á þá sem viðkvæmastir eru

Að mati Sigríðar ættu sóttvarnaaðgerðir frekar að einbeita sér að verndun viðkvæmra hópa því núna vitum við betur hvernig veiran hegðar sér og hvað hún gerir ungu fólki og hvað hún getur gert þeim eldri. 

„Hún fer verr með þá sem eru veikir fyrir. Ég held að þessar sóttvarnaaðgerðir eigi að miða að því að vernda slíka hópa en láta annað ganga sinn vanagang.“

Segir eftirköst ekki koma á óvart

Hvað með þá sem fá veiruna og virðast lengi glíma við eftirköst hennar?

„Það eru einhver dæmi um slíkt. Sérfræðingar segja mér að það komi engum á óvart en það er einkenni á svona veirum. Inflúensur hafi líka þessar afleiðingar en sérfræðingur benti á að þetta væri ekki í meira mæli vegna Covid en annarra veirusýkinga,“ segir Sigríður.

Hún segir að ekki sé hægt að koma í veg fyrir veiruna í samfélaginu og þess vegna sé ekki hægt að halda öllu lokuðu sem geri fólk veikara til að bregðast við henni; heilsufarslega og fjárhagslega. Hún segir að hætt sé við því að aðgerðir gegn veirunni geri meira ógagn en gagn.

Aumar aðfinnslur upplýsingafulltrúa ÍE

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, gagnrýndi Sigríði og fleiri sem hafa efast um sóttvarnaaðgerðir en það gerði hún í Vikulokunum á Rás 1. Þóra furðaði sig á því að gagnrýnendur kæmu ekki fram með lausnir. 

„Það er núna einhver mantra að kalla eftir lausnum hjá þeim sem voga sér að stíga fram og voga sér að benda á að pottur sé brotinn í sóttvarnalögum,“ segir Sigríður. 

Sigríður segir aðfinnslur Þóru Kristínar aumar og bendir á að hún hafi ítrekað sagt að heppilegra væri að einblína á þá viðkvæmari en ekki loka öllu. 

„Ég hef ekkert legið á mínum skoðunum og þetta er ákveðin leið sem ég tala fyrir og óska eftir skýringum frá yfirvöldum. Af hverju fara menn þessa leið?“ spyr Sigríður og bætir við að sín leið sé líkari margtugginni sænskri leið, sem sóttvarnalæknir hafi upphaflega viljað feta:

„Þess vegna er svo skrítið að menn hafi gefið í í þessum sóttvarnaaðgerðum þegar líður á faraldurinn og þegar það er alveg ljóst að menn eru að veikjast minna og höndla faraldurinn betur. Þá er gripið til harðari aðgerða. Það þarf að útskýra það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert