Atvinnulausir fái desemberuppbót

Drífa Snædal vill tryggja atvinnuleitendum uppbót fyrir jólin.
Drífa Snædal vill tryggja atvinnuleitendum uppbót fyrir jólin. Ljósmynd/ASÍ

Tryggja á fólki í atvinnuleit desemberuppbót, sambærilega þeirri sem er að finna í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, þ.e. 94.000 krónur, svo það þurfi ekki að leita á náðir hjálparsamtaka til að geta haldið jól. Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í grein sem birt var á vef samtakanna í gær.

„Við vitum öll að sú kreppa sem nú gengur yfir kemur afar misjafnt niður á fólki eftir aldri, atvinnugreinum og búsetu,“ segir Drífa í grein sinni. „Ósk eftir aðstoð frá hjálparsamtökum hefur aukist til muna og sama má segja um beiðnir um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.“

Hún segir desemberuppbót til atvinnuleitenda vera „það minnsta sem hægt er að gera einmitt núna“ og að það sé „eðlileg krafa“ að þeir fái slíka uppbót. Að sama skapi skuli tryggja uppbót fyrir örykja og að hún skuli verða skatta- og skerðingalaus, að sögn Drífu.

„Gerum allavega þetta rétt og drögum úr neyðinni!“ segir hún.

Grein Drífu á vefsíðu ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert