Aðstandendur látinna mega loksins kæra

Embætti landlæknis tekur nú við formlegum kvörtunum aðstandenda þeirra sem …
Embætti landlæknis tekur nú við formlegum kvörtunum aðstandenda þeirra sem látist hafa vegna læknamistaka. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Aðstandendur fólks sem látið hefur lífið vegna vanrækslu eða mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu hefur nú rétt á því að beina formlegri kvörtun til embættis landlæknis, en það var áður fyrr einungis í höndum viðeigandi heilbrigðisstofnunar hvort mistök yrðu kærð.

„Það hefur verið þannig að ef sjúklingur deyr vegna mistaka hefur enginn getað kært nema spítalinn,“ segir Auð­björg Reyn­is­dótt­ir hjúkrunarfræðingur í samtali við mbl.is.

Þessi breyting hefur þau áhrif að réttur aðstandenda látinna til mikilvægra gagna um andlátið er nú rýmkaður töluvert, en aðstandendur fengu engan aðgang að slíkum gögnum frá embætti landlæknis fyrir breytinguna þar sem þau voru ekki talin formlegir aðilar að kvörtunarmáli, ef í það var farið.

Auðbjörg Reynisdóttir hjúkrunarfræðingur.
Auðbjörg Reynisdóttir hjúkrunarfræðingur.

„Það var þannig áður að ef spítalinn lagði ekki fram kvörtun gátu aðstandendur ekki nálgast nein gögn, sjúkraskrár eða neitt og ekki kvartað til landlæknisembættisins,“ segir Auðbjörg. 

Þessi breyting getur reynst aðstandendum afar mikilvæg, sérstaklega ef höfða á dómsmál vegna mistakanna, en þá geta gögnin sem áður var haldið frá þeim skipt sköpum.

Hefur barist í tæp 20 ár

Auðbjörg missti son sinn, Jóel Gaut, vegna mistaka á bráðamóttöku árið 2001 og hefur staðið í réttindabaráttu aðstandenda fólks sem lætur lífið vegna læknamistaka síðan þá. Ýmsar breytingar hafa komið í kjölfar þeirrar löngu baráttu, en Auðbjörg stendur ekki ein í henni.

Ástríður Pálsdóttir líffræðingur missti Pál Hersteinsson eiginmann sinn árið 2011, einnig vegna mistaka í heilbrigðisþjónustu. Hún hefur, líkt og Auðbjörg, staðið í stríðu við úrelt kerfi síðan þá, og vann lítinn sigur 15. september sl. þegar henni barst bréf frá embætti landlæknis.

Í því bréfi var henni tjáð að embættið hefði tekið þá ákvörðun að breyta fyrirkomulagi kvartana, sem var í raun einungis breyting á verklagi þar sem lagaákvæðið sem byggt var á er alveg skýrt, svo nú mættu aðstandendur látinna senda formlega kvörtun til landlæknisembættisins. Það var áður ómögulegt án skriflegs umboðs hins látna, sem eðli máls samkvæmt er sjaldnast hægt að útvega.

Auðbjörg segir þessa breytingu ekki hafa verið kynnta nægilega vel fyrir almenningi, og tekur sem dæmi að ekki hafi verið minnst á hana einu orði í allri þeirri umfjöllun sem fylgdi hörmungunum á Landakoti í síðasta mánuði. Hún hafi þurft að grafa eftir þeim á vef embættisins.

„Þetta er ekki einu sinni auglýst á forsíðu vefs landlæknis. Þessum upplýsingum er ekki búið að dreifa,“ segir hún. „Það er augljóst að fólk veit ekki af þessu.“

Ísland taki nágranna sína til fyrirmyndar

Auðbjörg segir baráttu sinni hvergi nærri lokið þar sem víða sé pottur brotinn innan heilbrigðiskerfisins, og að megintilgangur þessa stríðs sé að „koma í veg fyrir að þetta gerist aftur eins og kostur er“.

„Við krefjumst þess bara að embættið uppfylli þau lög sem eru nú þegar til staðar,“ segir hún.

„Í öllum þeim málum sem ég þekki, sem landlæknir hefur komið að og viðurkennt að það voru gerð mistök, þá voru engar kröfur gerðar um breytingar eins og gert er í t.d. Noregi og Svíþjóð. Í þeim löndum þurfa stofnanir að skila inn ákveðnum upplýsingum eftir mistök sem leiða til dauða, og útskýra hvernig þær ætla að framkvæma breytingar til að sporna við því að það endurtaki sig. Á Íslandi er þetta ekki þannig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert