Hætta að horfa á það neikvæða

Sálfræðingarnir Paola Cardenes og Soffía Elín Sigurðardóttir eru með námskeið …
Sálfræðingarnir Paola Cardenes og Soffía Elín Sigurðardóttir eru með námskeið fyrir börn og ungmenni þar sem horft er á styrki þeirra í stað þess að einblína á veikleika. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkur finnst umræða um líðan barna og ungs fólks beinast allt of mikið að því neikvæða í stað þess að byggja upp jákvæðni. Vanlíðan má ekki vera aðalatriðið, heldur bara að líta til jákvæðra eiginleika barna og ungmenna sem þau búa þegar yfir. Heilbrigð sjálfsmynd skiptir meginmáli um það hvernig börnum og ungmennum vegnar síðar meir í lífinu,“ segja sálfræðingarnir Paola Cardenas og Soffía Elín Sigurðardóttir, stjórnendur Sjálfstyrks. 

Sjálfstyrkur sérhæfir sig í heildarlausnum í sjálfstyrkingu hjá börnum, unglingum og ungu fólki. Hugmyndafræðin byggist á því að í fólki búi ofurkraftar sem þurfi að virkja. „Aukin þekking á okkur sjálfum og bjargráð gera okkur öflugri til þess að takast á við erfiðleika og mótlæti í lífinu. Innra með okkur býr súperútgáfan af okkur sjálfum,“ segja þær. 

Á vef Sjálfstyrks kemur fram að leitast er við að miðla þekkingu sem varðar sjálfsmynd og sjálfstyrkingu, félagsfærni, tilfinningastjórnun og samskiptum. 

Paola Cardenas er klínískur sálfræðingur, fjölskyldufræðingur og doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Paola er með cand. psych.-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands auk meistaraprófs í fjölskyldumeðferð frá sama skóla. Hún lauk grunnnámi í sálfræði við Suffolk University í Boston. Hún er með mikla reynslu í vinnu með börnum, unglingum og fjölskyldum. Hún hefur starfað meðal annars hjá Barnahúsi, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Rauða krossinum og á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Paola hefur stýrt fjölmörgum sjálfstyrkingarnámskeiðum ætluðum börnum, unglingum og fullorðnum. Hún kennir einnig börnum og ungmennum jóga. 

Paola Cardenes er klínískur sálfræðingur, fjölskyldufræðingur og doktorsnemi í sálfræði …
Paola Cardenes er klínískur sálfræðingur, fjölskyldufræðingur og doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Soffía Elín er klínískur sálfræðingur og hefur starfað og rekið sálfræðistofuna Sentiu frá árinu 2011. Hún hefur unnið sem skólasálfræðingur bæði hér á landi sem og í Ástralíu við bæði greiningar- og meðferðarvinnu barna, unglinga og ungmenna. Hún er með mikla reynslu í vinnu með börnum, unglingum og fjölskyldum. Soffía Elín starfaði einnig sem sálfræðingur hjá Barnavernd Reykjavíkur. Hún kennir klíníska barnasálfræði við Háskólann í Reykjavík. Soffía Elín lauk meistaranámi í sálfræði við Western Sydney University í Ástralíu og lauk grunnnámi í sálfræði við Háskóla Íslands. Hún sérhæfir sig meðal annars í meðferð við áföllum, félagsfærni, ákveðniþjálfun, námslegum vandkvæðum og öðru sem snýr að líðan og hegðun barna og ungmenna. Soffía Elín útbjó og stýrir Nexus Noobs-sjálfstyrkingarnámskeiðum ætluðum börnum, unglingum og fullorðnum.

Soffía Elín Sigurðardóttir er klínískur sálfræðingur og hefur starfað og …
Soffía Elín Sigurðardóttir er klínískur sálfræðingur og hefur starfað og rekið sálfræðistofuna Sentiu frá árinu 2011. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að sögn Soffíu er langt síðan þær hófu undirbúning að námskeiðunum og stóð til að halda fyrsta almenna námskeiðið í haust. Þær ákváðu að fresta því vegna Covid-19 en þess í stað hafa þær haldið sérsniðin námskeið fyrir velferðarstofnanir þar sem unnið er í mjög smáum hópum. Stefnt er að því að opna fyrir almenn námskeið í janúar.

Paola segir að á Íslandi sé takmarkað framboð af námsgögnum, fræðslu og námskeiðum sem hafa verið útbúin hér á landi og þar með sniðin að okkar menningu og þær Soffía eru sammála um mikilvægi þess að búa til efni sem snýr að sjálfstyrkingu barna og ungmenna á íslensku sem miðast við gildi íslenskrar menningar og alls þess fjölbreytileika sem hér er að finna. 

Mest þörf á að sinna börnum af ólíkum uppruna

Hópur sem þær telja að þörf sé á að sinna eru börn af ólíkum uppruna. Mörg börn eiga erfitt með að tjá sig um líðan sína á íslensku.

„Eitt það síðasta sem þú lærir þegar þú kemur til Íslands er að tjá tilfinningar þínar á íslensku“, segir Paola og bætir við að þannig hafi það verið í hennar tilviki. Hún hafi fljótt lært að panta mat á veitingastöðum en það hafi verið erfitt fyrir hana að tjá sig á íslensku um hvernig henni liði.

Þær telja að mikilvægt sé að hlúa að börnum og ungmennum með ólíkar þarfir og þroska í samfélaginu. „Við erum ekki öll eins eða með sama bakgrunn og auga leið gefur að við verðum að sérsníða námskeið fyrir hvern hóp. Á það meðal annars við um börn sem hafa orðið fyrir áfalli, eru af ólíkum uppruna, eða eru með ýmis frávik í taugaþroska o.s.frv.,“ segja þær.

Blaðamaður spyr um kvíða og þunglyndi barna og ungmenna, ekki síst stúlkna, vegna umræðu í samfélaginu og að sögn Paolu er sjálfstyrking barna og ungs fólks svarið við kvíða og þunglyndi.

Soffía Elín bætir við að þar eigi þær við að unnið sé með börnum og ungmennum úr erfiðum upplifunum, meðal annars með því að efla bjargráð og styrkja þá hæfileika sem þegar búa innra með þeim. „Ef við horfum á þetta myndrænt, þá búum við yfir bæði ofurkröftum og ógnum. Mikilvægt er að þekkja hvort tveggja til þess að geta nýtt styrkleika okkar og tekist á við mótlæti. Streita er dæmi um ógn við vellíðan.“

Þær segja gott fyrir alla fullorðna að rifja upp hvað við vissum ekki þegar við vorum ung og hvað það vantaði oft upp á sjálfstraustið og jafnvel félagsfærni. „Við vitum þetta í dag en ég man vel eftir því hversu óörugg ég var með margt á þessum aldri,“ segir Paola.

„Við erum öll fljótari að læra og skilja viðfangsefni á myndrænu formi, óháð aldri,“ segja þær. Þess vegna hafa þær hannað í samstarfi við Viktoriu Buzukina myndefni sem kemur fyrir í námsgögnum sem þær nota á námskeiðum, fræðslu og fyrirlestrum. Viktoría Buzukina er sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður sem sérhæfir sig í teikningum og hefur hún teiknað myndir fyrir hvern súperstyrk. Viktoria er lærður grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands og hefur mikla reynslu í sínu fagi. Viktoria myndskreytir bækurnar um súperstyrkina, sem eru fyrir börn og unglinga saman, á næsta ári.

Viktoría hefur teiknað myndir fyrir hvern súperstyrk en nánar er …
Viktoría hefur teiknað myndir fyrir hvern súperstyrk en nánar er hægt að lesa um þá á vefnum sjalfstyrkur.is.

Hreyfing af hinu góða

Samhliða kennslu í sjálfstyrkingu og gagnsemi hennar er notast við jóga á námskeiðinu. „Hreyfing er góð og getur hjálpað okkur þegar erfiðlega gengur. Stundum þegar okkur líður illa þá höfum við ekki orku til að hreyfa okkur en það er einmitt það sem hjálpar okkur að komast í gegnum erfiðleika. Hreyfing er mjög mikilvægur partur af lífinu og eykur ekki bara velferð heldur stuðlar að betri tengingu við líkama okkar,“ segir Paola.

„Við sjáum að krakkar hætta oft að æfa íþróttir á unglingsárunum en það er mikilvægt að halda áfram að hreyfa sig á þessum árum þó svo þau hætti í skipulögðu íþróttastarfi. Niðurstöður rannsókna gefa til kynna að hreyfing hefur jákvæð áhrif á heilsu okkar og dregur úr streitu,“ segir Paola.

Byggt á gagnreyndum aðferðum

Soffía segir að eitt af því sem sé sérstakt við þeirra námskeið sé að þau byggi á fleiri en einni gagnreyndri aðferð. Þær reyni að tengja bestu meðferðarúrræði saman. Þrátt fyrir að hafa lagt stund á sálfræði í ólíkum samfélögum hafi þær fengist við svipuð viðfangsefni síðastliðna áratugi og búa yfir mikilli þekkingu á að vinna með áföll og félagsfærni barna og ungmenna. „Það skiptir miklu máli að fagaðilar með mikla þekkingu og reynslu komi að áfallavinnu með börnum og ungmennum þegar verið er að vinna með viðkvæmum hópum,“ segir Soffía.

Kvíði og áhyggjur viðbragð við ógn og hættu

„Við upplifum öll alls konar tilfinningar, það er bara mannlegt,“ segir Paola. Kvíði og áhyggjur eru viðbragð við ógn og hættu. Eðlilegar ógnir sem börn og unglingar upplifa eru til dæmis samanburður við aðra, álag í námi eða frístundum, félagslegt samþykki og almennt áreiti. Þetta árið bættist Covid-19 við sem ný ógn og raskaði fjölskyldulífi svo um munar. Nýjar og skrítnar áskoranir urðu til, eins og að vera í einangrun, nota grímu í skóla, vera í fjarnámi, geta ekki stundað íþróttir eða áhugamál, óleyfilegt að hitta vinina eða fá að mæta á skemmtanir eins og skólaböll og afmæli. Börn velta fyrir sér hvort hægt verði að halda jólin eins og venja er til og hafa áhyggjur af foreldrum sem eru alltaf heima eða eru atvinnulausir. Ástandið reynir því töluvert á þolinmæði og útsjónarsemi.

Paola Cardenes og Soffía Elín Sigurðardóttir.
Paola Cardenes og Soffía Elín Sigurðardóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Að sama skapi er ýmislegt jákvætt sem tengist ástandinu sem nú ríkir í samfélaginu,“ segir Soffía. Til að mynda geta fjölskyldur eytt meiri tíma saman og fundið upp nýja hluti til afþreyingar og samveru. Við höfum öll þurft að stoppa aðeins og endurmeta stöðuna og stefnu fjölskyldunnar, finna ný bjargráð til þess að takast á við nýjar og krefjandi aðstæður.

Minni félagskvíði og bjargráð mikilvæg

Einkenni hafa minnkað hjá þeim sem eru að glíma við félagskvíða. Aftur á móti á eftir að koma í ljós hvernig þeim gengur að takast á við félagskvíðann að nýju þegar dregið verður úr þeim takmörkunum sem gilda á Covid-tímum. Bjargráð á tímum Covid-19 eru því ofboðslega mikilvæg. Sumir hafa ekki þurft að takast á við eiginlegt mótlæti í lífinu en niðurstöður rannsókna gefa til kynna að aðstæður sem þessar geta laðað fram seiglu hjá fólki. Seigla er eiginleiki sem gerir fólki kleift að standast erfiðleika sem við þurfum að takast á við í okkar lífi. Áföll og kreppa þurfa því ekki endilega að hafa neikvæð áhrif á okkur því seigla getur veitt okkur styrk og sýnt okkur að innra með okkur býr styrkur sem við höfum öll. Styrkur sem getur minnt okkur á að við erum í grunninn sterk og höfum miklu meiri getu og færni en við teljum sjálf, segja þær.

Á sama tíma er tækifærið núna til þess að takast á við vandamál af ýmsum toga og þær Paola og Soffía segja að fólk hafi meiri tíma til að takast á við erfiðleika sem flestir glíma við. Lífið er því uppfullt af tækifærum, þótt á móti blási.

Eins og áður var sagt er stefnt að því að hefja almennt námskeiðahald í janúar auk fræðslu og fyrirlestra. Allar upplýsingar um Sjálfstyrk og ofurhetjurnar er að finna hér.

mbl.is