Hlemmur Square skellir í lás

Hótelið og hostelið Hlemmur Square var við mathöllina í miðbænum.
Hótelið og hostelið Hlemmur Square var við mathöllina í miðbænum. mbl.is/Styrmir Kári

Hótelinu Hlemmur Square hefur verið lokað frá og með deginum í dag. Klaus Ortlieb eigandi segist í færslu á Facebook neyðast til að loka vegna kórónuveirufaraldursins.

Í færslunni segir hann að hótelið hafi verið opnað fyrir sjö árum. Auk þess hafi það verið hostel, veitingastaður og bar; allt undir sama þakinu.

Hann sé sorgmæddur að þurfa að tilkynna að skellt hafi verið í lás og segist ekki hafa verið undanskilinn áhrifum kórónuveirunnar.

Hann þakkar gestum og starfsfólki fyrir kynni undanfarin ár og hvetur fólk til að fara varlega á tímum heimsfaraldurs.

mbl.is