Stefna ríkinu eftir langa baráttu

Ægir Guðni Sigurðsson og Ragnheiður Sveinþórsdóttir, móðir hans. Hún hefur …
Ægir Guðni Sigurðsson og Ragnheiður Sveinþórsdóttir, móðir hans. Hún hefur barist fyrir því að Sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við tannréttingameðferð vegna fæðingargalla en Ægir fæddist með skarð í gómi. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Fjölskyldur tveggja barna sem fæddust með skarð í gómi ætla á næstu dögum í mál við íslenska ríkið. Þær segjast nauðbeygðar vegna þess að Sjúkratryggingar Íslands hafi ítrekað neitað þeim um greiðsluþátttöku.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Rúv þar sem rætt var við Ragnheiði Sveinþórsdóttur, móður hins ellefu ára gamla Ægis Guðna sem fæddist með skarð í gómi.

Ægir hefur gengist undir margar aðgerðir og þarf á fleiri að halda en Sjúkratryggingar neita honum, og fleiri börnum í sömu stöðu, um greiðsluþátttöku vegna þess að fæðingargallinn er ekki sagður nógu alvarlegur.

Fjallað hefur verið um mál mæðginanna í Morgunblaðinu en Ragnheiður hefur vakið athygli á því frá árinu 2018. Reglugerðarbreyting var gerð í desember í fyrra og sótti Ragnheiður í framhaldinu um greiðsluþátttöku. Henni var svo synjað nú tíu mánuðum síðar.

„Við erum á endastöð,“ sagði Ragnheiður í kvöldfréttum Rúv um þá ákvörðun að stefna ríkinu.

mbl.is