„Gríðarlega ánægjulegar fréttir“

Biðröð í skimun vegna Covid-19 við Suður­lands­braut.
Biðröð í skimun vegna Covid-19 við Suður­lands­braut. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum á Landspítalanum og prófessor við Háskóla Íslands, er virkilega spenntur fyrir nýju bóluefni við Covid-19 frá Moderna sem tilkynnt var um fyrr í dag.

„Þetta eru gríðarlega ánægjulegar fréttir og uppörvandi og í takti við það sem við fréttum í síðustu viku af öðru bóluefni sem virkar á svipaðan hátt. Maður fagnar bara mjög,“ segir Magnús, spurður út í tíðindin en grunnprófanir gefa til kynna 95% virkni.

Litlar aukaverkanir 

Hann segir bólefnið virðast hafa einhverja kosti varðandi geymsluþol. Framleiðslugetan virðist aftur á móti vera minni en hjá fyrirtækjunum Pfizer og BioNTech sem sögðu í síðustu viku frá nýju bóluefni með 90% virkni. Því er líklegt að Moderna verði aðeins seinna til með sitt bóluefni á næsta ári.

Magnús segir það ánægjulegt hversu litlar aukaverkanir fylgja þessu bóluefni, miðað við grunnprófanir, og hvernig það virðist virka á ýmsa mismunandi hópa. „Allir sem fengu alvarlegan sjúkdóm í þessari rannsókn þeirra voru í lyfleysuhópnum. Það virðist ekki bara koma í veg fyrir einhvern vægan sjúkdóm, sem hefur líka verið áleitin spurning,“ greinir hann frá.

Heilbrigðisstarfsmaður að störfum í Covid-hlífðarbúningi.
Heilbrigðisstarfsmaður að störfum í Covid-hlífðarbúningi. AFP

Ekki tölfræðilega marktækur munur

Spurður frekar út í muninn á bóluefnunum tveimur segist hann efast um að munurinn á 90% og 95% virkni í grunnprófunum sé tölfræðilega marktækur. Best er að fara varlega í að segja að annað sé betra en hitt enda skeikar þarna tveimur til þremur einstaklingum til eða frá í mjög stórum hópi, að sögn Magnúsar. „Þau hafa bæði sýnt mjög góða virkni og eru líklega sambærileg. Það kæmi mér á óvart ef það væri stórkostlegur munur á þessum bóluefnum.“

Geymt við mínus 20 gráður

Mælt er með því að bólefnið frá Moderna sé geymt við mínus 20 gráður í einhvern tíma og verði síðan í kæli í 30 daga. „Það er merkilegt vegna þess að RNA [erfðaefnið í kórónuveirum] er afskaplega óstöðugt efni og brotnar hratt niður. Það er viðkvæmt fyrir hita og efnafræðilega öðruvísi. Þeim hefur tekist að gera kjarnsýruna stöðugri og þolnari fyrir hita, sem er mikilvægt ef við förum að nota bóluefnið við aðstæður þar sem ekki er kostur á að burðast með þurrís, frystigáma eða eitthvað slíkt,“ bendir hann á og segir þetta bóluefni því hafa þennan kost umfram hitt en sennilega séu þau sambærileg á annan hátt. Til dæmis eru þau bæði gefin í tveimur skömmtum.

Magnús Gottfreðsson.
Magnús Gottfreðsson.

Óvissa um hversu lengi vörnin varir

Áframhaldandi prófanir verða vitaskuld gerðar á nýja bóluefninu og gert er ráð fyrir að fólkinu sem tók þátt í grunnprófunum verði fylgt eftir í að minnsta kosti tvo mánuði eftir að seinni skammtur er gefinn en þannig er málum einnig háttað með hin nýju bóluefnin við veirunni. Eftir það verður fólkinu jafnvel fylgt eftir í tvö ár í viðbót til að sjá hversu lengi vörnin varir, segir Magnús. 

„Við vitum í raun ekkert um það enn þá, hvort bóluefnið gefur vörn fyrir hvert ár eða hvort það veitir mjög langvarandi vörn eins og mislingabóluefni og fleiri slík. Sum þarf að gefa á nokkurra ára fresti og önnur nánast ekki aftur,“ segir hann og bætir við að það sé alltaf gott þegar aðilar sem hafa verið að nálgast vandamálið í tengslum við þróun bóluefnis á svipaðan hátt fá jafn afgerandi niðurstöðu og núna hefur komið í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert