„Augljóst“ að gera má betur á Landakoti

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víða í heilbrigðiskerfinu skapast aðstæður sem standast ekki nútímagæðakröfur að mati heilbrigðisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur. Hún segir að gera verði betur í húsnæðismálum innan heilbrigðiskerfisins og að bygging nýs Landspítala megi ekki tefjast.

Þá segir hún augljóst að gera megi betur í smitvörnum á Landakotsspítala sem og annars staðar. Þar hefur, að hennar sögn, verið ráðist í endurbætur á húsakosti, sér í lagi því sem snýr að aðstöðu starfsmanna sjúkrahússins. Að minnsta kosti tíu eru látnir vegna hópsýkingar kórónuveiru sem þar kom upp seint í síðasta mánuði og er hún að stórum hluta rakin til lélegs húsakosts.

mbl.is tók Svandísi tali eftir fund ríkisstjórnar í dag. Spurð að því hvort aðstaðan á Landakoti væri boðleg fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsmenn hafði hún þetta að segja:

„Það sem við höfum í raun og veru séð núna er þessi innri úttekt Landspítala og mér er kunnugt um að það eru hafnar ýmsar endurbætur sem voru komnar af stað í vor, þá sérstaklega það sem laut að starfsmannaaðstöðunni. Því miður er þessi veira svo skæð að hún virðist smeygja sér fram hjá vörnum, en það er augljóst að betur má gera í smitvörnum þarna og alls staðar annars staðar.“ 

Hópsmit Covid-19 kom upp á Landakoti í október. Minnst 10 …
Hópsmit Covid-19 kom upp á Landakoti í október. Minnst 10 manns hafa fallið frá vegna þess. mbl.is/Kristinn Magnússon

Unnið að úrbótum víða

Svandís segir að unnið sé að úrbótum á húsakosti heilbrigðisstofnana um land allt, það sé verkefni sem unnið er að frá ári til árs. Nefnir hún í því sambandi úrbætur á sjúkrahúsinu á Akureyri, þar sem verið er að undirbúa nýja legudeild.

Þá er verið að vinna að endurbótum á Patreksfirði, Stykkishólmi, Selfossi, Höfn í Hornafirði, Húsavík og við Landspítalann við Hringbraut.

„Það er enginn vafi með það að það eru aðstæður sem ekki standast ströngustu kröfur nútímans úti um allt land, bæði í heilbrigðisþjónustu og í hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Víða erum við að gera endurbætur; til dæmis að breyta úr tvíbýlum í einbýli o.s.frv.“

Nýr Landspítali sem fyrst

Í skýrslu um hópsmitið á Landakoti kemur fram að stór þáttur í því að kórónuveiran hafi dreifst svo mikið um spítalann og raun bar vitni hafi verið slæm loftgæði. Í innri úttekt Landspítala á hópsýkingunni á Landakoti kemur meðal annars fram að þar sé ekki loftræsting á sjúkrastofum og að einkennalaus sjúklingur, sem síðar greindist með kórónuveiruna, hafi fengið kæfisvefnsvélarmeðferð, en þekkt er að vélar sem notaðar eru við slíkt auki dropaframleiðslu einstaklinga.

Vélin dreifði þannig úðagögnum úr öndunarfærum viðkomandi, sem geta svifið í loftinu í meira en klukkustund. Léleg loftræsting hefur svo líklega magnað upp aukna sýkingarhættu eins og segir í fyrrnefndri úttekt.

Svandís segir þetta sanna mikilvægi þess að byggja nýjan Landspítala og gera almennt betur í húsnæðismálum innan heilbrigðiskerfisins.

„Ég held að stóri lærdómurinn sé sá að við þurfum að herða okkur í því að byggja nýjan Landspítala og gera betur í húsnæðismálum almennt og að gæta betur að smit- og sóttvörnum almennt. Ég held að engan hafi órað fyrir því hvað það gæti verið afdrifaríkt þegar við byrjuðum þetta ár, hvernig okkur tækist til um persónubundnar sóttvarnir.“

Nýr Landspítali rís við Hringbraut.
Nýr Landspítali rís við Hringbraut. mbl.is

Skilyrði að hjúkrunarrými uppfylli kröfur

Svandís segir að lykilatriði í því að bæta við hjúkrunarrýmum sé að þau uppfylli þau skilyrði sem krafist er.

Eitthvað hefur borið á því að einkaaðilar á borð við hótelrekendur bjóði atvinnuhúsnæði sín undir hjúkrunarrými, líkt og Fréttablaðið hefur til að mynda greint hefur frá. Svandís segir að komi hafi til þess að bráðabirgðalausnir hafi verið nýttar undir svokölluð biðrými. 

„Það sem við þurfum að tryggja er það að hjúkrunarrými standist þær kröfur sem við gerum til hjúkrunarrýma.“

„Mín afstaða er sú að það sé mikilvægast að uppfylla nútímakröfur og að við slökum ekki á kröfum fyrir þennan hóp frekar en aðra hópa. Þannig að það sem er til skoðunar er að bæta við rýmum sem uppfylla slík skilyrði.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert