Engin „bylting“ í skólum á morgun

Hvorki kennarar né nemendur MR vildu gera miklar breytingar á …
Hvorki kennarar né nemendur MR vildu gera miklar breytingar á skólastarfinu á síðustu metrum annarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

„Það verður engin bylting í framhaldsskólum á morgun,“ segir Kristinn Þorsteinsson, formaður Skólameistarafélags Íslands. Bæði séu langflestir framhaldsskólar landsins með áfangakerfi sem henti illa fyrirkomulagi í nýrri reglugerð um skólastarf og stutt í annarlok og því lítill vilji til breytinga.

Einungis fimm af um 30 framhaldsskólum landsins eru með bekkjarkerfi. Þetta eru MR, Verslunarskólinn, ML, Kvennaskólinn og MA. Í þeim gæti mögulega verið tekin upp staðkennsla að nýju á morgun en í öðrum skólum þyrfti að bylta skólastarfinu til að hefja staðkennslu að nýju sem er ekki að fara að gerast. Í nýrri reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna Covid-19 sem tekur í gildi á morgun er gert ráð fyrir að 25 nemendur geti verið saman í kennslustofum. Gert er ráð fyrir tveggja metra reglu og grímuskyldu sé ekki hægt að framfylgja henni. Hins vegar má ekki verða blöndun á milli hópa sem í raun útilokar að skólar með áfangakerfi hefji staðkennslu að nýju.

Í Verzlunarskólanum verður staðkennsla á lokametrum annarinnar.
Í Verzlunarskólanum verður staðkennsla á lokametrum annarinnar. Árni Sæberg

Í Verzlunarskólanum er til að mynda stefnt að því að hefja staðkennslu að nýju að einhverju leyti en í Menntaskólanum í Reykjavík verður önnin kláruð í fjarkennslu. „En við opnum skólann fyrir stoðtíma og ef nemendur vilja koma og vinna í skólanum,“ segir Elísabet Siemsen rektor skólans í samtali við mbl.is. Svo lítið hafi verið eftir af önninni að ekki hafi verið vilji til þess að hefja staðnám að nýju hvorki hjá kennurum né nemendum sem þreyta lokapróf annarinnar í desember. Allur undirbúningur gangi þó út á að hefja staðnám að nýju í janúar.

Skiptar skoðanir eru á meðal kennara um opnun skólanna að nýju en Guðjón Hreinn Hauksson, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir að helstu fyrirvarar sem félagið setji við opnunina lúti að því að ekki sé gengið gegn tilmælum sóttvarnalæknis. „Þá erum við aðallega að hugsa um öryggi og velferð okkar fólks,“ segir Guðjón og bætir við að fólk óttist enn um sína heilsu. „Það eru enn undirliggjandi sjúkdómar og næsta fjölskylda er enn þá aldraðir foreldrar og svo framvegis.“ 

Guðjón Hreinn Hauksson er formaður Félags framhaldsskólakennara.
Guðjón Hreinn Hauksson er formaður Félags framhaldsskólakennara.

Starfsfólk í skólum landsins hefur margoft þurft að aðlaga sig að breyttu umhverfi í starfinu á árinu sem Guðjón segir að sé farið að taka sinn toll. „Fólk er orðið þreytt á því að vera að skipta sífellt um aðferðir og nú þegar komið er að lokanámsmati er ekki mjög sniðugt að rugga bátnum of mikið.“ Mikilvægt sé að fagleg sjónarmið verði ofan á þegar ákvarðanir eru teknar um róttækar breytingar á skólastarfinu.

Hugað að loftgæðum     

Loftgæði skipa nú sífellt stærri sess í umræðu um Covid-19. Í gær kíktum við á mbl.is í Réttarholtsskóla þar sem gripið var til þess ráðs í upphafi faraldursins að setja upp viftur við glugga í skólastofunum og ná þannig að hreinsa loftið í stofunum betur en hægt væri að gera bara með því að opna gluggana.

Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík, segir að verið sé …
Elísabet Siemsen, rektor Menntaskólans í Reykjavík, segir að verið sé að leita leiða til að efla loftræstingu í gamla skólanum í MR. Eggert Jóhannesson

Í reglugerð menntamálaráðuneytisins er lítillega vikið að loftgæðum sem skulu vera tryggð við próftöku. Elísabet segir enga loftræstingu vera í gamla skólanum og í ofanálag séu skólastofurnar litlar. „Þannig að við þurfum að huga að því hvernig það verður leyst. Það eru skiptar skoðanir um hvað sé best að gera en ég er að leita ráða.“ Þetta sé verið að gera í samráði við ráðuneytið.

Kristinn segir umræðuna um loftgæðin vera tiltölulega stutt komna. Sóttvarnir hafi verið vel leystar hingað til með grímum og spritti en ekkert miðlægt hafi verið gefið út sem gæti bætt loftgæði í skólum landsins. „Margir skólarnir eru nú ekki mjög gamlir og geta loftað nokkuð vel út,“ segir Kristinn.

Leiðrétting. Framhaldsskólar með bekkjarkerfi á landinu eru fimm ekki fjórir eins og fram kom í fyrri útgáfu fréttarinnar. Þar gleymdist að telja Menntaskólann á Laugarvatni með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert