Fleiri en eitt bóluefni til landsins

Þórólfur Guðnason.
Þórólfur Guðnason. Kristinn Magnússon

Vel kemur til greina að flytja til Íslands fleiri en eina tegund bóluefnis. Fyrirliggjandi eru samningar við tvo bóluefnaframleiðendur og vinnur Evrópusambandið einnig að samningi við Moderna sem tilkynnti í vikunni um nýtt bóluefni. Ísland hefur aðgengi að bóluefnum í gegnum sambandið. 

„Það er búið að gera samninga við tvo framleiðendur, Pfizer og Aztra Zeneca. Það er ekki samningur við Moderna en maður hefur heyrt að Evrópusambandið hafi hug á því að gera samning við þá líka,“ segir Þórólfur. Moderna tilkynnti í vikunni að væntanlegt væri bóluefni á markað frá lyfjafyrirtækinu. 

Hann bendir á að enn eigi eftir að fara yfir niðurstöður rannsóknanna sem liggja að baki framleiðslunni og gera þurfi það áður en gæði bóluefnanna eru metin. „Við vitum ekki hvaða hópa var verið að rannsaka, hvaða aldurshópar voru rannsakaðir og hvort fólk var með undirliggjandi sjúkdóma. Við eigum því eftir að sjá hvort bóluefnið henti fyrir alla. Það getur vel verið að bóluefnin henti misvel fyrir mismunandi hópa. Því getur vel verið að einum hópi sé gefið eitt bóluefni en annað fari til annars hóps,“ segir Þórólfur. 

Lyfjafyrirtækið Pfizer reið á vaðið og tilkynnti um væntanlegt bóluefni.
Lyfjafyrirtækið Pfizer reið á vaðið og tilkynnti um væntanlegt bóluefni. AFP

Oxford-bóluefni væntanlegt 

Bóluefnið frá Aztra Zeneca hefur einnig verið nefnt Oxford-bóluefnið. Þóttu snemmbúnar rannsóknir á því gefa góð fyrirheit og voru jafnvel væntingar um að það yrði tilbúið í haust. Svo fór þó ekki. „Það er svolítið öðruvísi uppbyggt bóluefni. Ég geri ráð fyrir því að það sé að vænta tilkynningar frá þeim fljótlega. Flestir sem eru komnir á endastigsrannsóknir vilja ekki bíða með svona tilkynningar. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir fyrirtækið að gefin sé út tilkynning um gæði bóluefnisins sem fyrst,“ segir Þórólfur. 

Að sögn Þórólfs eru menn engu nær um það hvenær bóluefni gæti verið fáanlegt. „Við höfum í raun bara fengið þessa tilkynningu um að byrjað verði að framleiða bóluefnið fyrir áramót. Svo þarf að framleiða hundruð milljóna eða milljarða skammta og því er ekkert frekar ljóst með tímasetninguna,“ segir Þórólfur. 

Virkja fólk til að skoða loftræstingarmál 

Eins og fram kom í skýrslu um sýkingar á Landakoti voru loftræstingarmál eitt af því sem taldist vera í ólagi. Spurður segir Þórólfur að haft hafi verið samband við sjúkrastofnanir í landinu og þau beðin um að gefa þessum málum gaum. „Við höfum verið í sambandi við hjúkrunarheimili, stofnanir í velferðarþjónustu og heilsugæsluna um að gæta vel að öllum sýkingarvörnum á stofnunum og hjúkrunarheimilum á þeirra svæðum. Við höfum að sjálfsögðu ekki tök á því að taka út hvern einasta stað. Því höfum við verið að virkja fólk á hverjum stað til að gæta vel að þessum hlutum. Við höfum bent fólki á stofnunum á að lesa þessa skýrslu sem Landspítalinn gerði og beðið það um að heimfæra hana yfir á eigin stofnun,“ segir Þórólfur. 

Loftræstingarmál voru einn þeirra þátta sem þóttu vera ábótavant á …
Loftræstingarmál voru einn þeirra þátta sem þóttu vera ábótavant á spítalanum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hvað með skóla og stofnanir og fyrirtæki almennt? 

„Það verður hver og einn að taka þetta til sín. Það verða allir að huga vel að sínum málum en auðvitað skiptir mestu máli að þetta sé gert þar sem viðkvæmustu hóparnir eru. Kannski á þetta síður við um fyrirtæki þar sem margir eru í fjarvinnu. Því er ekki eins knýjandi þörf á þessum stöðum eins og á hjúkrunarheimilum þar sem viðkvæmustu einstaklingarnir eru,“ segir Þórólfur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert