Leiga á farsóttarhúsi framlengd

Farsóttarhúsin eru nú þrjú, en gestum fækkar stöðugt.
Farsóttarhúsin eru nú þrjú, en gestum fækkar stöðugt. AFP

Ríkið hefur framlengt leigusamning á Hafnarstræti 67 á Akureyri til næstu tveggja vikna, en húsið er nýtt sem farsóttarhús. Það var opnað 23. október. Frá þessu segir í stöðuskýrslu almannavarna vegna kórónuveirufaraldursins.

Alls eru farsóttarhúsin þrjú, en gestum þeirra hefur fækkað stöðugt síðustu daga. Virk kórónuveirusmit eru nú 302 og 536 eru í sóttkví, að landamærasóttkví undanskilinni.

Matvælastofnun vinnur enn að því að skima alla minka í landinu fyrir veirunni, en ákvörðun um það var tekin eftir að smit greindust á búum í Danmörku. Ekkert smit hefur enn greinst.

Í stöðuskýrslunni segir að staða kórónuveirufaraldursins á landinu sé víðast hvar góð. Svo virðist sem náðst hafi utan um hópsmit á þeim stöðum sem þau komu upp. Þó sé álag á sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu. Sautján manns eru væntanlegir til landsins með Norrænu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert