Sýnataka á landamærum verður gjaldfrjáls

Sýnataka á landamærum verður gjaldfrjáls tímabundið frá 1. desember til …
Sýnataka á landamærum verður gjaldfrjáls tímabundið frá 1. desember til 31. janúar samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sýnataka á landamærum verður gjaldfrjáls tímabundið frá 1. desember til 31. janúar á næsta ári. Þetta hefur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ákveðið, en greint er frá þessu í tilkynningu frá ráðuneytinu. Rætt var um málið á fundi ríkisstjórnarinnar fyrr í dag.

Er ákvörðunin tekin í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis, en markmiðið er að hvetja fólk til að fara í sýnatöku fremur en að fara í sóttkví og þannig draga úr líkum á að smit berist inn í landið, segir í tilkynningunni.

Fram kemur að sóttvarnalæknir hafi vísað til þess í minnisblaði sínu til ráðherra að kviknað hafi sá grunur að ferðamenn væru ekki að fylgja reglum um sóttkví, sérstaklega þegar um væri að ræða ferðamenn sem einungis ætla að dvelja hér á landi í nokkra daga. Lagði sóttvarnalæknir til að annaðhvort yrði öllum gert skylt að fara í skimun nema læknisfræðilegar ástæður mæltu gegn því eða að ekki yrði tekið gjald fyrir skimun á landamærum. Var niðurstaða ráðherra að fara eftir seinni tillögunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert