Þurfa hugsanlega að endurskoða viðskiptakjör

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra telur áframhaldandi náin samskipti EES við Bretland séu afar mikilvæg fyrir innri markað svæðisins. Hann ítrekar að ýmsar forsendur sem lagðar voru til grundvallar við gerð nýlegs samnings milli Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur hafi breyst frá gerð samningsins. 

Þannig hafi Bretland nú gengið úr ESB og sá markaðsaðgangur sem samið var um við sambandið nái því ekki lengur til Bretlands.

„Þá skiptir líka máli að vegna áhrifa heimsfaraldursins á komu ferðamanna til Íslands hefur dregið úr eftirspurn eftir landbúnaðarvörum hér á landi. Því þarf hugsanlega að kanna hvort ástæða sé til endurskoðunar á þeim viðskiptakjörum sem samningurinn kveður á um,“ sagði Guðlaugur Þór á fundi EES-ráðsins í dag. 

Þýðing samnings verði ekki ofmetin

„Bretland er stærsta einstaka viðskiptaríki Íslands í Evrópu og næststærst á heimsvísu á eftir Bandaríkjunum. Þýðing þess að lokið verið sem fyrst við gerð fríverslunarsamninga við Bretland verður ekki ofmetin, hvorki fyrir EFTA-ríkin í EES né Evrópusambandið,“ sagði Guðlaugur Þór. 

Hann kom á framfæri þeirri skoðun sinni að í ljósi náinna tengsla Íslands og ESB væri óeðlilegt að íslenskar sjávarafurðir nytu ekki fulls tollfrelsis við innflutning til ríkja ESB, líkt og slíkar afurðir frá ýmsum þriðju ríkjum sem hafi minni tengsl við sambandið. 

mbl.is