„2020 heldur áfram að koma á óvart“

Jóhannes tók mynd af húsinu meðan hann beið eftir slökkviliðinu.
Jóhannes tók mynd af húsinu meðan hann beið eftir slökkviliðinu. Ljósmynd/Jóhannes Örn Ævarsson

Hjónin Jóhannes Ævarsson og Sif Garðarsdóttir í Fagrahjalla í Kópavogi vöknuðu upp með andfælum klukkan þrjú í nótt við það að garðskúr á lóðinni þeirra og heitur pottur ofan á honum stóðu í ljósum logum.

Það var kettinum þeirra Gæja að þakka að þau hjónin vöknuðu, segir Jóhannes í samtali við mbl.is. Gæi hafi stokkið inn um rúðuna og vakið Sif. „Hún heyrði svaka snark og ég ákvað að kíkja hvað var í gangi og þá sá ég þennan reyk,“ segir Jóhannes. Hann hafi þá séð heita pottinn, sem hann smíðaði sjálfur, í björtu báli. Eldsupptök eru enn ókunn, en Jóhannes segir útilokað að kviknað hafi í út frá rafmagni þar sem ekkert rafmagn eða ljós hafi verið á svæðinu. „En þetta ár 2020 heldur áfram að koma á óvart,“ skrifar Jóhannes á Facebook.

Ljósmynd/Jóhannes Örn Ævarsson

Slökkviliðið var fljótt á vettvang og tókst að slökkva eldinn áður en eldurinn náði að smjúga inn í húsið. „Flest sem var á pallinum brann, tíu rúður brotnuðu, einn gluggi, þakkantur og rennur farið en ótrúlegt að ekkert sót komst inn, en það munaði bara örfáum mínútum sagði slökviliðsmaður að eldurinn kæmist inn,“ skrifar Jóhannes. 

Hann segir að þau hjónin séu heppin að ekki hafi farið verr og þakkar nágrönnum sínum fyrir aðstoðina og hugulsemina.

Vísir greindi fyrst frá.

Svona var umhorfs á pallinum í morgun.
Svona var umhorfs á pallinum í morgun. Ljósmynd/Jóhannes Örn Ævarsson
mbl.is