Getur fræðilega orðið smitberi að nýju

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Einstaklingur sem hefur fengið COVID-19 getur fræðilega orðið smitberi síðar, bæði með snertingu og dropum. Endursýkingar með COVID-19 geta átt sér stað en virðast mjög sjaldgæfar. Þetta kemur fram í svari Jóns Magnúsar Jóhannessonar, deildarlæknis á Landspítalanum, á Vísindavef Háskóla Íslands.

Endursýkingar gætu orðið algengari með tímanum, samkvæmt svarinu. Endursýkingar geta átt sér stað þrátt fyrir mælanleg mótefni gegn SARS-CoV-2. Smitvarnir ættu að vera þær sömu óháð því hvort einstaklingur sé með mótefni eða ekki, að öðru óbreyttu. Bóluefni geta myndað sterkara og langvinnara ónæmi en náttúrulegar sýkingar, sérstaklega ef notaðir eru viðbótarskammtar (e. booster).

Þetta þýðir að fyrri saga um Covid-19 útilokar ekki dreifingu veirunnar síðar meir segir í svari Jóns Magnúsar. 

„Það er raunhæfur möguleiki að einstaklingur, sem hefur fengið Covid-19 og jafnað sig, geti borið veiruna á sér og borið til annarra eins og hver önnur óhreinindi. Hins vegar er ólíklegt að slíkur einstaklingur geti borið veiruna áfram með dropasmiti – nema um endursýkingu sé að ræða,“ segir meðal annars í svari Jóns Magnúsar en það er hægt að lesa í heild hér.

  1. Einstaklingar sem hafa fengið Covid-19 geta sýkst aftur. Þá er talað um endursýkingu.
  2. Þeir sem fá endursýkingu geta smitað líkt og við fyrstu sýkingu.
  3. Nákvæmlega hvað leiðir til þess að sumir endursýkjast er ekki þekkt; þannig ber að hegða sér eins og allir geti fengið endursýkingu þar til annað kemur í ljós.
  4. Þetta útilokar þó ekki að bólusetning gegn Covid-19 sé gagnleg.

„Covid-19 dreifist fyrst og fremst með dropasmiti. Þrátt fyrir mikla umfjöllun um úðasmit og snertismit eru þessar smitleiðir taldar skipta minna máli en dropasmit, þótt báðar smitleiðir séu mögulegar. Úðasmit gæti verið sérstaklega mikilvægur þáttur í svokölluðum ofurdreifiviðburðum (e. super-spreading events) en einnig þegar inngrip í heilbrigðisþjónustu leiða til myndunar úða frá öndunarfærum,“ segir m.a. í svari Jóns Magnúsar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert