Hefur áhyggjur af jólunum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hægt sé að gleðjast yfir þeim góða árangri sem náðst hefur í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn undanfarið, hann megi þakka samtakamætti landsmanna. Hann segir jafnframt að enn sé margt óvíst hvað bóluefni varðar þrátt fyrir jákvæðar fréttir undanfara daga. Hann hefur þó áhyggjur af jólahátíðinni sem senn gengur í garð.

„Ég hef áhyggjur af að við gleymum okkur yfir jólatímann,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna fyrir hádegi. Hann segir að hópamyndun sem landsmönnum er tamt að stunda yfir hátíðirnar gefi ástæðu til þess að hafa áhyggjur. Það sé einmitt hópamyndun sem hefur drifið þriðju bylgju faraldursins hér á landi, að hans sögn, og nefnir hann vinnustaði, fjölskyldusamkomur, hittinga vinahópa og íþróttastarf í þessu sambandi.

Alma D. Möller landlæknir hafði orð á því að til skoðunar væri að gefa út sérstök tilmæli til fólks um hvernig best sé að haga hátíðahaldi yfir jólin, að minnsta kosti hvað sóttvarnir varðar.

Árangur í höndum okkar allra

Hann segir að þrátt fyrir að árangur hafi náðst af aðgerðum sóttvarnayfirvalda undanfarið standi árangurinn og falli með þátttöku landsmanna og tilhneigingu þeirra til að stunda einstaklingsbundnar sýkingavarnir. Þórólfur virtist bjartsýnn en varkár í umræðum um tilslakanir aðgerða.

„Við förum mögulega að geta slakað á en við verðum að fara hægt í sakirnar,“ sagði Þórólfur.

Að mörgu að hyggja varðandi bóluefni

Varðandi bólusetningar segir sóttvarnalæknir að þar sé að mörgu að hyggja. Til að mynda geti mismunandi sviðsmyndir skapast út frá því hversu mikið af bóluefni kemur hingað til lands, hvenær það kemur og hversu gott það er. Hann segir að undirbúningur fyrir komu bóluefnis sé hafinn og verði lokið fyrir árslok.

„Við erum byrjuð á fullu að undirbúa komu bóluefnis og bíðum bara spennt.“

Þórólfur sagði einnig að ef lítið bóluefni fæst þurfi að forgangsraða. Vinnu við forgangslista er nærri lokið.

Þórólfur segir jafnframt að ef á bilinu 80% til 90% landsmanna verði bólusett með góðu bóluefni megi líklega aflétta aðgerðum ansi hratt. Hann vísar til könnunar meðal landsmanna sem sýni fram á að 90% Íslendinga séu jákvæð í garð þess að láta bólusetja sig við kórónuveirunni. Yfir því kveðst Þórólfur geta glaðst.

Enginn Víðir

Rögnvaldur Ólafsson sat upplýsingafund í stað Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns. Hann hóf fundinn á því að hrósa starfsmönnum í velferðarþjónustu fyrir vel unnin störf á erfiðum tímum.

Alma D. Möller var einnig viðstödd sem áður. Hún tók undir fyrri orð Þórólfs um að álag á Landspítala færi minnkandi og minntist því á lýðheilsu landsmanna. Hún taldi meðal annars um mikilvægi þess að borða hollt, fá nægan svefn, hreyfa sig daglega og lágmarka áfengis- og tóbaksnotkun.

mbl.is

Bloggað um fréttina