Jólabónusinn skertur niður í núll

Guðmundur Ingi Kristinsson.
Guðmundur Ingi Kristinsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er stórfurðulegt að veiku fólki og eldri borgurum sé dýft á kaf í skerðingarpyttinn,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, er hann vakti máls á jólabónusum í fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun.

Hann benti á að desemberuppbót samkvæmt kjarasamningum VR sé 94 þúsund krónur miðað við fullt starf, atvinnulausir fá um 85 þúsund krónur en eldri borgarar og öryrkjar um 45 þúsund krónur. Þingmenn fá 185 þúsund króna launauppbót fyrir jólin.

Af þessum 94 þúsund krónum greiða VR-félagar að meðaltali um 40% skatt sem þýðir að þeir fá útborgað um 56 þúsund krónur og af þeim 185 þúsund krónum sem þingmenn fá eru eftir skatt um 110 þúsund krónur eftir. Desemberuppbót örorkulífeyrisþega nemur 30 þúsund krónum eftir skatt. „En hún er síðan skert hjá stórum hópi lífeyrisþega en ekki hjá okkur þingmönnum eða þeim sem eru á vinnumarkaði,“ sagði hann.

„Ríkisstjórnin setur upp mismununargleraugun og taumlausa skerðingarsamviskuleysið með keðjuverkandi skerðingum fyrir jólin til þess eins að skerða desemberuppbót vegna lífeyrissjóðslauna niður í núll. Ekkert. Við fáum jólabónus skattaðan en óskertan, en hjá veiku fólki og eldri borgurum er hann skattaður og keðjuverkandi skertur í ekkert, ekki krónu,“ sagði Guðmundur Ingi, sem ljáði einnig máls á þessu í ræðu sinni fyrir síðustu jól.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skili sér sem mest til þeirra sem hafa minnst

Guðmundur Ingi spurði hvort fjármálaráðherra fyndist þetta sanngjarnt. Bjarni Benediktsson sagði að skerðingarreglur almannatryggingakerfisins eigi að tryggja að takmarkað fjármagn rati helst til þeirra sem eru í mestri þörf. „Við þurfum bara að ákveða hvað við ætlum að ráðstafa háum fjárhæðum í sérstöku desemberuppbótina og fara yfir það hvernig hún skilar sér, til þess að geta svarað þessari spurningu. En mín skoðun er eftir sem áður sú að það er auðvitað best að það skili sér sem mest til þeirra sem hafa minnst,“ svaraði hann.

Guðmundur Ingi sagði svör Bjarna furðuleg og benti á að lífeyrissjóðurinn skerði jólabónusinn. „Hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta það að búa til jólabónus upp á 45 þúsund krónur og skatta niður í 30 þúsund krónur en hirða það síðan og segja að það sé eðlilegt? Er þá ekki miklu heiðarlegra að segja: Þið fáið hann ekki. Við ætlum ekki að láta ykkur hafa jólabónusinn?“ spurði hann.

Bjarni spurði á móti hvað einkenni fólk sem fær óskerta desemberuppbót. „Er það ekki einmitt það að þau hafa ekki aðra tekjustrauma til að framfleyta sér? Og hvað einkennir þann hóp sem hefur tapað, í það sem háttvirtur þingmaður kallar skerðingarpyttinn, öllum viðbótargreiðslum? Hvað einkennir þann hóp, ef við horfum eingöngu til þeirra sem sjá mest lítið út úr þessu? Er það ekki einmitt það að þau skera sig frá hinum með því að þau hafa aðra tekjustrauma? Þetta svarar spurningunni,“ svaraði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert