Nýju tæki sýkla- og veirufræðideildar seinkar

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

Seinkun hefur orðið á nýju greiningartæki sem sýkla- og veirufræðideild Landspítala gerði ráð fyrir að taka í gagnið fyrir jól. Tækið átti að koma hingað til lands í þessum mánuði en nú er fyrirséð að það komi ekki fyrr en í desember í fyrsta lagi. Yfirlæknir á deildinni segist vona til þess að hægt verið að hefja notkun á nýja tækinu strax á nýju ári.

Með tækinu verður sýkla- og veirufræðideild kleift að greina öll þau kórónuveirusýni sem tekin eru á degi hverjum. Deildin mun því ekki lengur þurfa að reiða sig á stuðning sérfræðinga hjá Íslenskri erfðagreiningu og aðstöðu þar.

„Það hefur orðið einhver seinkun á þessu eins og öllu öðru í þessum faraldri,“ segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. 

Flókin og dýr kaup

Undirbúningur fyrir komu tækisins hefur staðið yfir í einhvern tíma og mun halda áfram þar til tækið kemur til landsins. Tækið kemur frá Þýskalandi og líklega munu koma hingað til lands sérfræðingar frá Bretlandi til þess að aðstoða við uppsetningu tækisins. Fyrirhugaður kostnaður er 100 milljónir króna.

„Við höfum verið að undirbúa þetta lengi núna, já. Þetta tæki er rúm tvö tonn að þyngd og tekur heilt herbergi, þannig að þetta er ansi umfangsmikið verkefni. Nú ef að sérfræðingarnir bresku sjá sér ekki fært að koma hingað til lands þá verður að aðstoða okkur með fjarfundarbúnaði, sem gerir flækjustigið enn meira.“

Karl segir að tækið verði mikil búbót fyrir deildina. Hægt verði að auka þjónustu við bæði lækna og sjúklinga til muna. Hann segir að seinkun afhendingarinnar ekki vera slæm fyrir afkastagetu deildarinnar, enda fer sýnum sem tekin eru fækkandi, samhliða fækkun kórónuveiratilfella á landsvísu.

„Afkastagetan hefur ekki verið vandamál, en þetta er aðallega óþægilegt fyrir allt skipulag að þessu seinki svona.“

Nýja tækið mun geta greint fjögur þúsund sýni á dag.
Nýja tækið mun geta greint fjögur þúsund sýni á dag. Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Nýting tækisins á pari við mikinn undirbúning

Umfang undirbúnings sýkla- og veirufræðideildar er margs konar að sögn Karls. Til að mynda mun tækið nýtast í fleira en greiningar á kórónuveirusýnum. Hægt verður að greina alls kyns sýni sem áður hafa jafnvel verið send erlendis til greiningar, líkt og fram hefur komið áður í samtölum mbl.is við Karl. 

„Svo höfum við fest kaup á öryggisskápum (e. safety cabinets).“

Til að geyma sýnin, þá eða?

„Nei, til þess að vinna með þau. Þetta eru svona glerhjúpar sem sérfræðingar vinna við og mynda skil milli þess rýmis sem unnið er í og þess rýmis sem sýnið er í. Þannig er loftið inni í skápnum, þar sem sýnið er opnað, aðskilið frá því lofti sem sérfræðingurinn vinnur í. Svo er loftið í skápnum sogað í gegnum örsíur áður en því er hleypt annað.“

Já, þannig að það fari ekki bara kórónuveira út um allt?

„Já, akkúrat.“

Verða ekki lengur hjálparþurfi

Með tilkomu nýja tækisins verður sýkla- og veirufræðideild ekki lengur neydd til þess að reiða sig á stuðning annarra, eins og Íslenskrar erfðagreiningar. Karl tekur undir orð Kára Stefánssonar, forstjóra ÍE, sem sagði að samstarfið hafi verið farsælt. 

„Samstarfið hefur verið í alla staði ánægjulegt,“ sagði Karl við mbl.is í dag og tók þannig í sama streng og Kári gerði í samtali við mbl.is þann 16. október síðastliðinn, þegar hann sagði: „Það er ekki yfir neinu að kvarta.“

mbl.is
Loka