ASÍ og SA sammála aðgerðum stjórnvalda

Halldór Benjamín Þorbergsson og Drífa Snædal.
Halldór Benjamín Þorbergsson og Drífa Snædal. Samsett mynd

Forsvarsmenn bæði ASÍ og Samtaka atvinnulífsins fagna aðgerðum stjórnvalda sem kynntar voru fyrr í dag.

Halldór Benjamín, framkvæmdastjóri SA, fagnar því að fyrirtæki sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli séu styrkt með beinum hætti og segir viðmiðin skýr.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir gott að verið sé að ráðast í sértækar aðgerðir fyrir viðkvæma hópa, ekki sé þó komið til móts við allar kröfur ASÍ. 

Í samtali við mbl.is sagði Drífa „Þetta skiptir sannarlega miklu máli, bæði desemberuppbót fyrir atvinnuleitendur og eingreiðslan til öryrkja,“ en Drífa hefur áður kallað eftir því að atvinnuleitendur fái desemberuppbót.

SA fagna því að miðað sé við 2019 

„Það sem mest er vert er að viðmiðið fyrir viðspyrnustyrkina miðar við árið 2019 sem skiptir höfuðmáli í þessu samhengi, þar sem 2020 er farið fyrir ofan garð og neðan hjá mjög mörgum.“

Halldór segir ánægjulegt að sjá hlutabótaúrræðið framlengt enda sé það úrræðið sem hefur hvað mest verið notað í glímunni við veiruna. Hann segir hlutabótaúrræðið hafa gagnast mörgum með beinum hætti og komið í veg fyrir enn frekari uppsagnir á atvinnumarkaði.

„Við megum aldrei gleyma hvert markmiðið er með öllum aðgerðum sem boðaðar eru, það er í raun tvíþætt; annars vegar að koma í veg fyrir uppsagnir [...] og hins vegar að tryggja að fyrirtækin verði til staðar þegar viðspyrnu er náð,“ segir Halldór. 

Fyrirsjáanleiki á landamærum lykilatriði

Halldór Benjamín kallar eftir fyrirsjáanleika í ákvörðunum um fyrirkomulag á landamærunum.

Fyrr í dag var tilkynnt um að fyrirkomulag myndi haldast óbreytt á landamærunum, og að næsta ákvörðun ætti að liggja fyrir eigi síðar en 15. janúar næstkomandi. 

„Ég legg áherslu á að það verði gert eins fljótt og auðið er [tilkynnt um fyrirkomulag á landamærum til framtíðar]. Þar skipta dagar máli,“ segir Halldór í samtali við mbl.is. 

Það kom fram í kynningu ríkisstjórnarinnar að þessar efnahagslegu aðgerðir miðuðu að því að veita fyrirsjáanleika inn í veturinn og vorið, það þarf einnig þennan fyrirsjáanleika hvað varðar sóttvarnaaðgerðir og framtíðarfyrirkomulag á landamærunum. Það er mikilvægt að þetta fari hönd í hönd.

Fagna því að komið sé til móts við viðkvæma hópa

Drífa segir mikilvægt að fallist hafi verið á þá kröfu ASÍ að greiða atvinnuleitendum desemberuppbót.

Ég held að stjórnvöld hafi séð neyðina í þessu [..] Það er þannig að við stóðum frammi fyrir því hvort auka ætti biðraðir í hjálpastofnanir eða láta fólk hafa desemberuppbót. Þetta eru hóparnir sem eru illa settir, sérstaklega í desember.“

Þá segir Drífa að samkvæmt þeirra útreikningum séu 9 milljarðar að fara til heimilanna í formi tryggingahækkana og barnabóta o.s.frv. en  allt að 20 milljarðar settir í viðspyrnustyrki gagnvart fyrirtækjum.

Við minnum enn á það að það getur verið skakkt gefið og þarf að fara í sérstakar aðgerðir gagnvart heimilunum,“ segir Drífa.  

Hverjar eru kröfur ykkar sem ekki var komið til móts við?

„Við vildum sjá atvinnuleysisbæturnar 95% af lágmarkslaunum, þær eru núna að fara upp í 87%, og desemberuppbót er lægri en á kjarasamningum á almennum markaði.

mbl.is