„Áskorun að spýta enn frekar í með fjárfestingar“

Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, segir ríkisstjórnina skoða frekari …
Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, segir ríkisstjórnina skoða frekari leiðir til að ýta undir fjárfestingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, segir mikinn mun á þeim aðstæðum sem séu í kringum kynningu stjórnvalda í dag og fyrir átta mánuðum þegar fyrsti aðgerðapakkinn var kynntur. Þá hafi verið uppi mikil óvissa og ekki vitað hvaða aðgerðir myndu gagnast best. Nú séu hins vegar komnar væntingar um bóluefni og reynsla og þekking frá fyrri aðgerðum sé notuð til að styrkja meðal annars félagslega innviði og viðkvæma hópa enn frekar.

Í dag kynnti ríkisstjórnin aðgerðapakka sinn undir yfirskrif viðspyrnu, en meðal þess sem kynnt var á fund­in­um í dag var fram­leng­ing á hluta­bóta­leiðinni og að tekju­tengt tíma­bil at­vinnu­leys­is­bóta hef­ur verið lengt. Þá verða grunn­atvinnu­leys­is­bæt­ur hækkaðar, greidd verður ein­greiðsla til ör­orku- og end­ur­hæf­ing­ar­líf­eyr­isþega og skerðing­ar­mörk í barna­bóta­kerf­inu hækkuð. Þá verður 900 millj­ón­um varið til stuðnings ým­issa viðkvæmra hópa með stuðningi við fé­laga­sam­tök o.fl.

Telur úrræði sem nýttust illa geta reynst vel á næstunni

„Það er meiri fyrirsjáanleiki í því sem við erum að setja fram núna en við gátum í vor. Þar vorum við svolítið að reyna að takast á  við eitthvað sem við vissum ekki nákvæmlega myndi gerast. Það hefur reynst margt mjög vel og það erum við að framlengja.“ Hann segir að ljóst sé að sum úrræði hafi ekki nýst jafn vel og vonast var til vísar þar meðal annars til sutðnings- og brúarlána. Hann telur þó að þau úrræði geti reynst vel á næstu stigum. „Þótt þau hafi ekki endilega nýst að fullu þá teljum við að núna sé komið að því að fyrirtækin og fjármálafyrirtækin geti séð til enda og þannig vonandi komist í gegnum restina af veiruslagnum,“ segir Sigurður.

Áform uppi um að hvetja enn frekar til fjárfestinga

Ríkið hefur í ár lofað umtalsverðum fjármunum í ýmsar framkvæmdir og flýtt öðrum með það að markmiði að koma með innspýtingu í fjárfestingar. Á það til dæmis um við nokkrar samgönguframkvæmdir. Sigurður segir að meira þurfi þó að koma til á komandi misserum. Segir hann að fókusa þurfi á atvinnulífið og viðbótarfjárfestinga til að „skapa störf og aftur störf.“

Aðgerðirnar voru kynntar af ríkissjórninni í Hörpu í dag.
Aðgerðirnar voru kynntar af ríkissjórninni í Hörpu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Auðveldasta viðspyrnan er að það verði til fyrirtæki á ferðaþjónustumarkaði til að takast á við það þegar við erum komin í eðlilegt ástand,“ segir Sigurður. Með vísan í spá Seðlabankans í Peningamálum sem kom út í vikunni segir hann hins vegar að meira þurfi að gera. „Það er áskorun að spýta enn frekar í með fjárfestingar,“ segir hann og bætir við: „Við höfum líka áform uppi um að koma með hluti sem munu hvetja til fjárfestina atvinnulífsins.“  Spurður nánar út í það nefnir hann frekari skattaafslætti vegna fjárfestingar og þá hafi ríkisstjórnin einnig talað mikið um græna fjárfestingu og aðra hvata sem auðveldi fjárfestingar. „Þetta er eitt af því sem við höfum verið að skoða.“

Markaðsátak á fullt þegar tímarammi á bólusetningar liggur fyrir

Í mars, þegar fyrsti pakkinn var kynntur, var eitt af atriðunum að fara í mikið markaðsátak erlendis til að sækja fleiri ferðamenn. Sigurður segir spurður um tímaramma á því verkefni nú þegar sjái til lands með bóluefni að hann telji að hefja eigi það markaðsátak um leið og vissa verði komin með bólusetningartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert