Ítrekað bent á skort á samráði

Salvör Nordal umboðsmaður barna.
Salvör Nordal umboðsmaður barna. mbl.is/Hari

Umboðsmaður barna hefur ítrekað þurft að benda opinberum aðilum á skort á samráði við börn, jafnvel í málum sem varða mikilvæga hagsmuni þeirra.

„Hér má sem dæmi nefna nýlega tillögu menntamálaráðuneytis um breytingar á viðmiðunarstundatöflu grunnskóla en ekkert samráð var haft við börn um þær fyrirhuguðu breytingar sem kynntar voru í samráðsgátt stjórnvalda. Ber til þess að líta að samráðsgáttin er ekki aðgengileg börnum.

Umboðsmaður barna sendi bréf til nemendaráða allra grunnskóla, upplýsti um tillögurnar og hvatti nemendaráðin til að láta málið til sín taka, og bauð fram aðstoð sína. Þó nokkur nemendaráð fengu aðstoð umboðsmanns barna við að senda inn umsögn í samráðsgáttina og höfðu þannig mikilvæg áhrif á frekari vinnslu málsins.

Það er brýnt að hafa í huga að þátttaka barna snýst ekki eingöngu um að veita þeim aðgang að stjórnkerfinu heldur eru sjónarmið og reynsla barna auðlind sem nýta má í þeim tilgangi að bæta málsmeðferð, auka hagkvæmni lausna og ná betri árangri,“ segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Á hverju ári er 20. nóvember helgaður börnum og mannréttindum þeirra en þennan sama dag árið 1989 var Barnasáttmálinn samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Margt hefur áunnist í málefnum barna í íslensku samfélagi á síðustu árum og áratugum. Það er ekki síst fyrir tilkomu Barnasáttmálans sem boðaði nýja sýn á börn sem sjálfstæða rétthafa og hefur breytt samfélagslegum viðhorfum til þeirra. 

„Réttur barna til áhrifa og þátttöku er tryggður í 1. mgr. 12. gr. Barnasáttmálans sem er ein grundvallarreglna sáttmálans. Þar kemur fram að tryggja skuli barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varðar, og skal taka réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur og þroska. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem fer með eftirlit með framkvæmd Barnasáttmálans og veitir jafnframt leiðbeiningar um túlkun og beitingu hans, hefur lagt ríka áherslu á rétt barna til þátttöku. Í síðustu tilmælum barnaréttarnefndarinnar til Íslands frá árinu 2011 áréttaði nefndin að auka þyrfti virðingu fyrir sjónarmiðum barna á öllum sviðum samfélagsins. Gaf nefndin íslenska ríkinu þau tilmæli að setja reglugerð um starfsemi og hlutverk ungmennaráða og tryggja að tillit verði tekið til sjónarmiða barna fyrir dómstólum, í skólum og við meðferð allra mála sem varða þau, þ.m.t. barna með fötlun, barna með innflytjendabakgrunn og annarra barna sem eru í viðkvæmri stöðu.

Á árinu 2021 mun Ísland aftur sitja fyrir svörum hjá barnaréttarnefndinni um stöðuna á innleiðingu Barnasáttmálans og mun þá þurfa að gera grein fyrir því hvernig tekist hefur til við að efla þátttöku barna. Á þeim níu árum sem liðið hafa hefur ekki verið orðið við tilmælum nefndarinnar um setningu reglugerðar um ungmennaráð og mikið verk er óunnið í því verkefni að tryggja aðkomu barna að ákvörðunum sem varða þau og þátttöku þeirra í allri stefnumótun um málefni barna.“

 Í tilefni dagsins stendur umboðsmaður barna fyrir málþinginu „Áhrif barna: Tækifæri, leiðir og framkvæmd.“ Þinginu verður steymt á facebooksíðu umboðsmanns barna frá kl. 12:00 í dag, en fulltrúar ráðgjafarhóps umboðsmanns stýra þinginu. Marta Magnúsdóttir fjallar um vinnuskóla sveitarfélaga, sem eru oftar en ekki fyrsta reynsla barna af vinnumarkaði, og leiðir til þess að veita ungmennum tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri í þeim tilgangi að þróa og bæta starfið. Þá mun Guðjón Þór Jósefsson gera grein fyrir þeim leiðum sem ríki hafa farið í þeim tilgangi að tryggja þátttöku barna og þeim skilyrðum sem þurfa að vera uppfyllt við þátttöku barna til þess að hún teljist áhrifarík og uppbyggileg. Loks mun Vígdís Fríða Þorvaldsdóttir fjalla um samráð við börn í íslenskri stjórnsýslu og rýna í skipulag, virkni og áhrif ungmennaráða hér á landi.

mbl.is