Tugþúsundir veiruafbrigða til

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Kristinn Magnússon

Margir tugir veiruafbrigða af Covid-19 hafa greinst á Íslandi. Til þessa hafa gögn ekki stutt það að eitt afbrigði sé meira smitandi eða illvígara en annað. Þau bóluefni sem kynnt hafa verið til sögunnar ættu að hafa sömu virkni óháð því um hvaða afbrigði veirunnar ræðir. Tugþúsundir afbrigða veirunnar eru til í heiminum. 

Íslensk erfðagreining hefur sinnt greiningum á veirunni hér á landi. Að sögn Kára Stefánssonar, forstjóra fyrirtækisins, komu flest afbrigði veirunnar til landsins í fyrstu bylgju faraldursins þegar fólksflutningar voru enn óheftir.  „Þessi afbrigði eru að öllum líkindum þannig að þau haga sér öll eins. Það eru ekki til mikil gögn sem benda til þess að það sé stór munur á því hversu smitandi þau eru eða hversu illvígur sjúkdómurinn verður,“ segir Kári. 

Veiruafbrigði Frakkanna ekki verri en önnur 

Að sögn hans nýtist greining á veiruafbrigðum helst til þess að greina það hvernig veiran breiðist út í samfélaginu. „Það sem helst stendur upp úr er veiruafbrigði sem menn rekja til tveggja Frakka sem komu til landsins 15. ágúst. Það afbrigði virtist breiðast mjög hratt út í Bretlandi. Því voru menn að leika sér með þá hugmynd að þetta afbrigði breiddist hraðar út en önnur. Fyrir því er liggur hins vegar enginn sönnun,“ segir Kári.  

Að sögn Kára er engin ástæða til annars en að ætla að bóluefnin muni virka á öll veiruafbrigði. 

Engin vísbendingar um áhrif á virkni bóluefnis 

Undir þetta tekur Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum. „Mismunandi arfbrigði hafa enga þýðingu fyrir virkni bóluefnisins. Veiran er flokkuð á grundvelli raðgreininga. Þegar menn sjá einhvern breytileika í erfðamenginu, þá geta menn skipt veirunni í ákveðna flokka. Það er hins vegar svo að þegar búið er til bóluefni þá beinist það að ákveðinni sameind á yfirborði veirunnar. Sú sameind hefur ekki breyst,“ segir Magnús. 

Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir.
Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalæknir.

Hann segir að erfðabreytileiki  veirunnar sem er grundvöllur þessarar flokkunar sé mjög breytilegur. „Það eru til tugir þúsunda veiruarfbrigða um allan heim. Það eru engar vísbendingar um að þær erfðabreytingar séu þess eðlis að þær dragi úr virkni bóluefnisins,“ segir Magnús.   

mbl.is

Bloggað um fréttina