Varað við versnandi færð

Búast má við því að færð spillist síðar í dag vegna snjókomu inn til landsins. Eins er varað við stormi undir Eyjafjöllum og í Öræfum. 

Snjókoma allvíða inn til landsins eftir hádegi í dag með tilheyrandi líkum á versnandi akstursskilyrðum að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Einnig er útlit fyrir staðbundið hvassviðri eða storm undir Eyjafjöllum og í Öræfum um tíma eftir hádegi.

„Fremur hægur vindur og úrkomulítið í morgunsárið en í dag gengur nokkuð kröpp lægð austur fyrir land með tilheyrandi snúningum í veðri. Það gengur í norðaustan og norðan 8-15 m/s með rigningu eða snjókomu sunnan- og suðaustanlands fyrir hádegi og síðdegis um landið norðanvert. Hiti um og yfir frostmarki. Um og eftir hádegi hvessir við suðurströndina, og má búast við skammvinnu hvassviðri eða stormi undir Eyjafjöllum og í Öræfum.

Í kvöld og nótt gengur í norðvestan 15-23 m/s austan til á landinu og þá dregur úr úrkomu sunnanlands. Minnkandi norðlæg átt og áfram rigning eða snjókoma um landið norðanvert á morgun, en þurrt að kalla sunnan heiða. Norðangola eða -kaldi og úrkomuminna síðdegis,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Suðlæg átt, 5-10 m/s, og úrkomulítið. Gengur í norðaustan og norðan 8-15 með rigningu eða snjókomu S- og SA-lands fyrir hádegi og síðdegis um landið N-vert. Hiti um og yfir frostmarki. Hvessir um tíma við S-ströndina eftir hádegi. Gengur í norðvestan 15-23 A-til í kvöld og nótt og dregur úr úrkomu S-lands.
Minnkandi norðlæg átt og áfram rigning eða snjókoma um landið N-vert á morgun, en þurrt að kalla sunnan heiða. Norðan 5-13 og úrkomuminna síðdegis.

Á laugardag:

Norðan og norðvestan 13-20 m/s og snjókoma eða rigning um landið N- og A-vert, annars hægari og úrkomulítið. Dregur smám saman úr vindi og úrkomu með deginum. Hiti um og yfir frostmarki.

Á sunnudag:
Hæg breytileg átt og bjart með köflum en stöku él um landið S-vert. Frost 0 til 6 stig.

Á mánudag:
Gengur í norðaustan 8-15 með dálítilli snjókomu eða slyddu á N- og A-landi en þurru veðri SV- og V-lands. Hiti um og undir frostmarki, en 1 til 6 stig við S-ströndina.

Á þriðjudag:
Minnkandi norðaustlæg átt og dálítil él um landið N- og A-vert, annars úrkomulítið. Heldur kólnandi.

Á miðvikudag:
Vestlæg eða breytileg átt og víða bjart veður. Frost 2 til 10 stig.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir ákveðna sunnanátt með rigningu eða slyddu um landið S- og V-vert. Hlýnar talsvert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert