Biðraðir ganga hratt

Biðröð fyrir utan verslun Hagkaupa í Smáralind um síðustu helgi.
Biðröð fyrir utan verslun Hagkaupa í Smáralind um síðustu helgi. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Margir virðast ætla að klára jólaundirbúninginn snemma í ár ef marka má Sigurð Reynaldsson, framkvæmdastjóra Hagkaupa. Hann segir að fólk sé fyrr í því en áður og hefur ekki áhyggjur af biðröðum sem myndast hafa við verslanir í dag og í síðustu viku. Ákvörðun um að hafa „tax free“ af völdum vörum í Hagkaupum var mjög vel ígrunduð.

„Þetta hefur gengið mjög vel,“ segir Sigurður við mbl.is.

„Ég er búinn að fylgjast með þessu í dag, við vorum komin upp í hámark um ellefuleytið í dag og síðan þá hafa verið biðraðir við flestallar verslanir.“

Fjöldatakmörk eru í gildi í verslunum eins og flestir mega átta sig á. Í matvörubúðum og lyfjaverslunum mega 50 koma saman nema stærð húsnæðis leyfi meiri mannfjölda, þá fer það eftir fermetrastærð.

Ekki óábyrgt að vera með tax free

„Við hugsuðum þetta mjög vel. Á endanum ákváðum við að hafa tax free tíu dögum seinna en verið hefur og svo lengdum við opnunartímann í „mollunum.“ Annars erum við með góða kúnna sem hjálpa okkur við að láta þetta virka. Við gætum ýtrustu varúðar og það taka allir þátt í því með okkur. Það er mikil ró yfir fólkinu í röðinni og þegar inn er komið þá er ekki mikill troðningur, eins og gefur að skilja.“

Sigurður segir að biðraðir hafi myndast fyrir utan flestallar verslanir Hagkaupa í dag en að þær gangi fljótt fyrir sig, fólk þurfi ekki að bíða mikið lengur en 10 mínútur í flestum tilfellum.

„Svo þakkar maður bara fyrir veðrið, milt og fínt, allavega hérna á höfuðborgarsvæðinu. Það væri leiðinlegra ef það væri rigning og 12 metrar á sekúndu.“

Smáralind um síðustu helgi.
Smáralind um síðustu helgi. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Mjög fín bókajól

Svo virðist sem fólk ætli ekki að missa af jólagjafainnkaupunum þetta árið og byrji snemma. Sigurður telur að álagið á verslanir muni dreifast þessi jólin en að álagið verði engu að síður þokkalegt, eins gefur að skilja.

En hver er jólagjöfin í ár?

„Við höfum séð að Lego er vinsælt í netverslunum okkar. Sá gamli framleiðandi virðist ekkert ætla að láta ástandið á sig fá,“ segir Sigurður eftir örstundar umhugsun.

„Svo verða þetta góð bókajól. Þetta verða mjög fín bókajól.“

Smáralind um síðustu helgi.
Smáralind um síðustu helgi. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert