Höfðu fengið leyfi til að nota völlinn

Frá æfingunni.
Frá æfingunni.

„Við höfum haft töluverðar áhyggjur af þeim aldurshópi sem ekki fær að æfa. Við sendum skilaboð til krakkanna þar sem hvetjum þau til hreyfingar og látum þau vita að þau geti nýtt þennan völl á vissum tímum þegar hann er laus,“ segir Ása Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Stjörnunnar. 

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hafði lögreglan afskipti af æfingu á Stjörnusvæðinu fyrr í vikunni. Segir Ása að iðkendur annars félags hafi haft samband við lögregluna eftir að þeir voru beðnir um að fara af vellinum. 

Hjálpum krökkunum frekar

„Við vorum búin að senda skilaboð til krakka um að þau geti nýtt völlinn. Þetta er sá hópur sem mest þarf á þessu að halda, þau eru að einangrast í þessu ástandi. Við vildum bjóða þeim að koma á þennan völl, en báðum þau sömuleiðis um að fylgja öllum sóttvarnarreglum,“ segir Ása og bætir við að það sé ekki vænlegt til árangurs að eltast við umræddan aldurshóp. 

„Þetta er áhættuhópur hvað varðar að flosna upp úr skóla og íþróttum. Við erum öll að reyna að vanda okkur. Snúm frekar bökum saman og hjálpum þessu krökkum. Við erum á hættulegri leið ef við ætlum að eltast við svona mál.“

mbl.is