Sé jafnvel steinana hreyfa sig

Svissneska listakonan Rebekka Kühnis er sest að á Íslandi og …
Svissneska listakonan Rebekka Kühnis er sest að á Íslandi og vill hvergi annars staðar vera. Hér situr hún með litlu stofuna í baksýn en hún hannaði og smíðaði allt húsið sjálf með góðri hjálp frá einum smiði. mbl.is/Ásdís

Það er farið að skyggja þegar blaðamaður bankar upp á hjá svissnesku listakonunni Rebekku Kühnis í litla, skrítna og háa húsinu sem stendur í hlíðum Svalbarðsstrandar, gegnt Akureyri. Þar ríkir friður og ró og útsýnið yfir fjörðinn er dásamlegt. Rebekka býður í bæinn og inn í afar litla en vistlega stofu. Við setjumst við eldhúsborðið og gestgjafinn hitar ljúffengt sítrónute og býður upp á heimabakaða súkkulaðimúffu sem erfitt er að standast. Húsið er hannað og smíðað að mestu af henni sjálfri, með góðri hjálp. Rebekka kennir nú norðlenskum börnum smíði, sinnir myndlist og nýtur náttúrunnar.
En hvað er það sem dregur svissneskt borgarbarn til Íslands, og það í einangraða sveit?

Alein í óbyggðum

Það er um aldarfjórðungur síðan Rebekka kom fyrst til Íslands. Hún segist hafa heillast af Íslandi alveg frá fyrstu heimsókninni.

Rebekka teiknar íslenskt landslag og eru myndir hennar oft marglaga.
Rebekka teiknar íslenskt landslag og eru myndir hennar oft marglaga.

„Ég kom hingað fyrst til að vinna, þegar ég var tvítug. Mér leið eins og ég væri heima. Og þegar ég kom í annað skipti leið mér eins og ég væri að koma heim. En þá var ég á fullu í námi og fór aftur heim og fetaði þá braut,“ segir hún og fór aftur heim að klára námið. 

Hún gat þó ekki gleymt Íslandi og kom aftur árið 2012, þá til þess að ganga um öræfi landsins, en hún er mikill göngugarpur.

„Ég gekk þá um landið, ein með tjald. Ég fór oft bara ein í fimm daga göngur sem var yndislegt. Það er svo gott að hverfa út í náttúruna. Árið 2013 tók ég mér svo hálfs árs leyfi og kom hingað og gekk um landið í þrjá mánuði. Þá ákvað ég að fara í fyrsta sinn til Akureyrar en mig vantaði félagsskap og langaði að læra íslensku.“

Ákvað að flytja til Íslands

Rebekka er frá Windich í Sviss en bjó rúman áratug í Zürich áður en hún kom hingað. Þar lagði hún stund á myndlist og kennslu og var þar myndlistarkennari í menntaskóla í tólf ár. Ísland togaði hana til sín og Rebekka ákvað að flytja til landsins árið 2015. Hún var komin í áhugavert og vellaunað starf í Sviss sem myndlistarkennari og þurfti að hugsa sig vel um áður en hún yfirgæfi alveg líf sitt í Zürich.

Flott vinnustofa er á annarri hæð hússins þar sem Rebekka …
Flott vinnustofa er á annarri hæð hússins þar sem Rebekka vinnur að myndlist sinni. mbl.is/Ásdís

„En ég ákvað samt að koma hingað og setjast að árið 2015, en ég byrjaði á að fá hálfs árs leyfi frá vinnu. En eftir hálft ár var ég viss um að ég vildi búa hér. Ég hafði verið aðeins byrjuð að læra íslensku úti, horfði á íslenskt sjónvarp og lærði dálítið. Fyrst þegar ég kom hingað norður vann ég á Backpackers og hélt námskeið en fór svo að kenna myndlist í menntaskóla. Nú er ég að vinna í Hrafnagilsskóla og kenni smíði og sinni útikennslu,“ segir hún og segir starfið mjög skemmtilegt.

Byggði draumahúsið

Rebekka býr ein í afar sérstöku húsi, en eins og margt annað í lífinu, var það tilviljun ein að hún endaði þar.

Húsið er mjög sérstakt með aðeins 30 fermetra gólfflöt. Rebekka …
Húsið er mjög sérstakt með aðeins 30 fermetra gólfflöt. Rebekka ræktar sitt eigið grænmeti í garðinum. Ljósmynd/Rebekka

„Ég var að hugsa um að kaupa mér íbúð á Akureyri en frétti af lóð hér, en arkitektinn Árni Árnason hafði teiknað hér nokkur hús sem stundum eru kölluð „mjólkurumbúðahúsin“. Hann var með hugmynd að húsi fyrir mig, að byggja hátt hús. Það er svo prívat hér og gott skjól. Það vildi samt enginn þessa lóð af því að fólki fannst ekki nógu gott útsýni héðan, en þá byggði ég bara uppi í brekkunni og hærra,“ segir hún og er alls ekki hægt að kvarta yfir útsýninu.

Rebekka hannaði því sjálf draumahúsið sitt, með hjálp frá Árna.
„Það var byrjað að byggja það haustið 2017 og var ég með yndislegan smið, hann Kristján Örn Helgason. Við byggðum það saman. Ég er auðvitað ekki húsasmiður og hann sá um það grófa en ég sá um flest inni í húsinu. Ég sá um alla einangrun, gips, gólf og fleira. Hann kenndi mér að nota vélarnar og ég lærði þetta bara,“ segir hún og segist hafa flutt inn í febrúar 2018, þó ekki hafi allt verið klárað þá.

Húsið stendur í hlíð úti í náttúrunni þar sem Rebekku …
Húsið stendur í hlíð úti í náttúrunni þar sem Rebekku líður best. Útsýni er yfir Eyjafjörðinn. Ljósmynd/Rebekka

Húsið er aðeins 30 fermetrar í gólfflöt og stendur hátt, á tveimur og hálfri hæð. Niðri er stofa, eldhús og gestabað, á efri hæð er vinnustofa og stórt bað og mjög hátt til lofts. Loftið er svo tekið inn til helminga, og þar má finna nánast þriðju hæðina sem rúmar tvö lítil svefnherbergi.

„Svo er ég með hæsnakofa og á nokkrar hænur. Hér er líka stór garður og þar rækta ég sjálf allt grænmeti. Ég hef verið mikið náttúrubarn allt frá barnsaldri og hef aftur fundið náttúruna hér. Svo er ég hér með heitan pott og lítið gestaherbergi, en ég fæ stundum vini frá Sviss í heimsókn.“

Sest að fyrir lífstíð

Hvað fannst fjölskyldu þinni í Sviss um að þú værir sest að hér?

„Þau skilja það ekki,“ segir hún og hlær.
„Ég þekki næstum engan sem finnst ekki Ísland spennandi, nema foreldra mína. Þau skilja þetta ekki, en þau hafa bara komið einu sinni hingað. Þau eru meira fyrir löndin í suðri, með kúltúr og blómlegum gróðri.“

Í myrkrinu minnir húsið á ævintýraturn.
Í myrkrinu minnir húsið á ævintýraturn. mbl.is/Ásdís

Ætlarðu að búa hér alla ævi?

„Já, já. Ég er komin heim. Ég var aldrei heima í Sviss. Þar fann ég mig ekki alveg,“ segir hún en þess má geta að Rebekka talar afar góða íslensku.

Að teikna er hugleiðsla

Þegar Rebekka á lausa stund sinnir hún myndlistinni. Hún teiknar bæði stórar og litlar myndir og leitar mikið í náttúruna eftir innblæstri.

„Ég teikna mest með kúlupenna. Þegar ég er að ganga í náttúrunni tek ég myndir og nota þær svo sem fyrirmynd. Ég vinn myndirnar í vinnustofunni,“ segir Rebekka en hægt er að skoða myndir hennar á rebekkakuehnis.ch.

„Að teikna er svolítið eins og hugleiðsla; ég fer þá aftur inn í náttúruna þar sem ég var að ganga,“ segir hún og nefnir að hún hafi haft áform um sýningu á Akureyri, en að nú sé allt í óvissu vegna Covid.

Myndir Rebekku eru einstakar, en hún tekur gjarnan ljósmyndir og …
Myndir Rebekku eru einstakar, en hún tekur gjarnan ljósmyndir og styðst við þær við gerð teikninga. mbl.is/Ásdís

Rebekka vinnur eingöngu í svart-hvítu og eru myndir hennar gjarnan unnar þannig að hún notar línur til að skapa mörg lög, hreyfingu og dýpt.

„Ég byrjaði með þetta viðfangsefni vegna þess að mér fannst náttúran í Sviss svo hreyfingarlaus og stöðug; þar eru stór gömul fjöll. En þegar ég kom til Íslands fannst mér allt í náttúrunni einhvern veginn meira lifandi; á vissan hátt sé ég jafnvel steinana hreyfa sig.“

Ítarlegt viðtal er við Rebekku í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »